31.03.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (1423)

67. mál, brúargerð á Miðá og Hörðudalsá

Þorsteinn Þorsteinsson. Þar sem 1. flm. er ekki við látinn, vil ég fylgja till. á leið með nokkrum orðum, þótt meginástæður hennar séu teknar fram í grg. Þar er sýnt, hve mikið nauðsynjamál þetta er fyrir sveitir þær, sem hlut eiga að máli, bæði til þess að þær komi frá sér mjólk og öðrum afurðum og geti dregið að sér nauðsynjar, — og þá eigi sízt, hver nauðsyn er á brúm, þegar sækja þarf lækni í lífsnauðsyn og ár geta orðið ófærar dægrum saman. Miðá er að vísu ekki stórt vatnsfall. En hún er svo laus í botni, að hún er ófær bílum, nema mjög lítið vatn sé í henni. Síðasta áratug hefur Dalasýsla ekki fengið nema eina á brúaða. — Ég tel ekki smásprænu, sem brúuð var uppi undir Bröttubrekku. — Það er því áreiðanlega ekki nema sanngjarnt, að Alþingi láti nú ekki héraðið verða svo afskipt lengur. Og þessar brúargerðir eru mjög aðkallandi. — Annars óska ég, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.