07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Við 1. umr. þessa frv. hér í þessari hv. d. mun hafa verið gerð nokkur grein fyrir því, í hverju liggja aðalbreyt. þessa frv. um tekjuskatt og eignarskatt frá þeim l., sem sett voru hér á síðasta reglulegu Alþ., og sem breytt verður með þessum l., og ég skal ekki fara mikið út í það. Og eins og nál. ber með sér, sem er aðeins örstutt, þá er þar ekki annað sagt en það, að n. mæli með því, að frv. verði samþ. M.ö.o., fjhn. er sammála um að leggja til, að frv. þetta verði samþ. Hitt er það, að í jafnflóknu máli og jafnumdeildu máli má nærri geta, að einstakir nm. eru ekki út af fyrir sig sammála um öll atriði þessa frv.

Nefndin mælir með, að frv. verði samþ., en gerir ráð fyrir, að brtt. muni koma fram. Enn hafa þær aðeins komið frá einum nefndarmanna, hv. 10. landsk. (EÞ), á þskj. 336, sem útbýtt hefur verið á fundinum, en fleiri kunna að koma. Ég hef ekki hreyft neinum brtt., því að eins og kunnugt er, var frv. borið fram á Alþ. eftir vandlega athugun og undirbúning, — aðallega í ríkisstj. og í samráði við flokkana, — og samkomulag hafði náðst um frv. í öllum atriðum, er miklu máli skipta, milli Sjálfstfl, og Framsfl., og lít ég svo á, að þeir flokkar séu svo bundnir af því samkomulagi, að mér þýddi ekki að bera fram brtt. um það, sem ég hefði kosið mjög á annan veg. Að vísu er óskertur rétturinn til að bera fram brtt. um einstök atriði og samþ. þær, og í Nd. hafa ýmsar brtt. verið samþ. Þær breytingar skal ég ekki rekja að neinu ráði. Gerð var t.d. viðbót við 2. gr., lítils háttar, en allmikil viðbót við 4, gr. um frádráttarhækkun, sömuleiðis aukið nokkrum nánari ákvæðum við 7. gr. frv. Sérstaklega er það ein breyt., sem talsverður ágreiningur var um, og ég mundi hafa viljað kippa því atriði í samt lag aftur, en það eru nýjar gr., 11.– 12. gr., sem eru um það að stofna sérstakt dómaraembætti í skattamálum. Þá er nýr liður, 14. gr., e, um nefnd þá, sem á að hafa eftirlit með fé nýbyggingarsjóða. — Hins vegar komu fram í Nd. aðrar og miklu víðtækari brtt., sérstaklega frá fulltrúum Alþfl., en voru felldar. Sé ég, að brtt., sem hér var útbýtt á þskj. 336, eru að mestu endurtekning þeirra. Samþykkt þeirra um slík ágreiningsatriði mundi aðallega verða til þess að tefja málið, þar sem sama togstreitan og varð um það í Nd. hlyti þar að endurtakast og frv. yrði þar aftur breytt, líklega í núverandi horf. Væri þá til þess eins barizt að seinka málinu og skattálagningu þessa árs, en hún hefur þegar dregizt allt of lengi. Fjhn. Ed. afgreiddi málið miklu fljótar en hún hefði ella kosið, því að skattanefndum kemur töf þess afar illa. Til þess að þær geti farið að starfa, mælir n. með því, að frv. sé afgreitt sem allra tafaminnst.