07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Magnús Jónsson):

Út af ummælum hv. 10. landsk. um þingræðið vildi ég segja, að óskandi væri, að engin meiri hætta steðjaði að því en sú, að mál sem þetta kæmu vel og ýtarlega undirbúin undir það frá ríkisstj. Þegar samsteypustjórn situr að völdum, er ekkert eðlilegra en samkomulags sé fyrst leitað, eins og hér var gert, innan ríkisstj. og því næst þreifað eftir, hvort þingvilji muni til fyrir því samkomulagi, sem þar er unnt að ná. Með því er enginn réttur af Alþ. tekinn, enda frjálst að gera brtt. og hefur borið árangur við þetta frv. í Nd. Þetta er gert til þess, að Alþ. þurfi ekki að eyða löngum tíma í að karpa um frumatriði mála, og þá er fyrirfram tryggt, að ekki verði allt til ónýtis, heldur gangi frv. fram í aðaldráttum eins og það er undirbúið. — Til stjórnarandstæðinga getur ríkisstj. yfirleitt ekki leitað með undirbúning þennan, því að þeir eru jafnan lítt tilleiðanlegir að takast hann á hendur.

Um brtt. Alþfl.-manna hefur þegar verið mjög mikið rætt í Nd. Ég skal nú ekki fara langt út í að tala um brtt. Fyrsta brtt. er um það, hvernig haga skuli því skattfrjálsa fé, sem félögin eiga í varasjóði, og er það á svipaðan hátt og var í l. í fyrra. Hér er um tvær óskyldar aðferðir að ræða, sem hv. þm. eiga að velja á milli með atkvæði sínu. Ég vil benda hv. þm. á það, að eftir því sem félögin eru neydd til að leggja meira fé í varasjóð, umfram það, sem þau hafa skattfrjálst, því minna hafa þau af handbæru fé í skatta. Ég hygg, að ekki muni þess langt að bíða, að félögin hafi ekkert handbært fé utan varasjóðsins til þess að greiða með skattana, enda munar ekki miklu, að svo sé, þegar þau v erða að greiða allt að 94% í útsvör og skatta. Munu þau þá verða neydd til að nota heimild til að taka fé úr varasjóði og borga með skattana. Ég held þess vegna, að miklu betra sé að hafa skattstigann svo háan sem hér er um að ræða. Þegar svo er komið, að útgerðarfélögin leggja, að mig minnir, 1/3 af arði sínum í varasjóð, er ekki hægt að bæta við öllu ríflegra varasjóðstillagi, enda eru engin ósköp eftir, sérstaklega ef lögð eru eignaútsvör og veltuútsvör á þann hluta, sem undanskilinn er tekjuskattinum. Viðvíkjandi b-lið brtt., hvernig verja skuli varasjóðnum, þá er ekki mikið um hann að segja. En ég vil benda á það, að til eru skýr fyrirmæli um það, hvernig verja skuli varasjóðnum. Í þessum stafliðum, sem taldir eru upp í frv., er sérstaklega tekið fram, hvernig megi verja varasjóðnum, en c-liður brtt. er allt annars eðlis. Hinir stafliðirnir eru allir til að koma í veg fyrir, að eigendur félaganna eða þeir, sem ráða fyrir þeim, geti náð einhverju handa sér af þessu fé, t.d. með því að hafa óeðlilega hátt verð á eignum o.s.frv., og þetta er miklu eðlilegra heldur en það, sem hv. þm. leggur til, að bætt verði inn í frv. Hvað snertir fyrirmælin um, hvernig félögin skuli geyma varasjóð sinn, þá hef ég skilið það svo, að þetta sé áfram hrein eign félaganna, og þess vegna er hér gerð tilraun til að skerða ráðstöfunarrétt félagsstjórnar. Það verður að vera eftir hennar mati, hvað telst sameiginlegur hluti félagsins.

Það er nú erfitt að segja um, hvað er óviðkomandi rekstrinum. Togarafélögin geta keypt jarðir og notað svo afurðir búsins til eigin þarfa. Í þessu sambandi má geta þess, að sum stórblöðin í Englandi keyptu stóra skóga á Newfoundlandi og lifðu á þeim. Það er ekki gott að segja, hvaða leiðir víðsýnir fjáraflamenn fara til að láta fyrirtæki sín blómgast. Hvað sem svo félögin kaupa fyrir varasjóð af fasteignum, þá eru þessar eignir eftir sem áður í varasjóði. Ég vil segja, að það er mikill munur á a-, b- og c-lið frv. og brtt. hv. þm. Þessir liðir í frv. eru eingöngu viðkomandi skattamálunum. Það er tilraun til þess að koma í veg fyrir, að hlutaðeigandi forráðamenn félaganna geti náð peningum úr varasjóði og stungið þeim í eiginn vasa.

Þá er c-liður brtt. stafl. 2 um, að síðari málsgr. 7. gr. falli niður; en sá liður fjallar um að koma tvísköttun á aftur. Hv. þm. játaði hreinskilnislega, að hér væri um tvísköttun að ræða. Fyrst er eign félagsins metin og greiddur af henni skattur, og auk þess þarf hver einstakur félagsmaður að borga skatt af sínum hluta í eign félagsins. Þetta getur ekki náð nokkurri átt, og það er ekki venjan í skattal. að skattleggja sömu eignina tvisvar. Finnst hv. þm. sanngirni í því, að hjón borgi fullan skatt, bæði af sínu félagsbúi? Hér er alveg um það sama að ræða. Sama eignin er skattlögð tvisvar. Þessi tvísköttun virðist einnig vera í hlutafélögunum. Ef maður tekur út umfram 5%, þá er það tvískattað og er reiknað sem tekjur félagsins og einnig tekjur félagsmanna.

Ég get því ekki annað en lagt á móti brtt. fyrir mitt leyti, en n. hefur ekki enn tekið afstöðu til þeirra.