07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bernharð Stefánsson:

Þess mun vera getið í nál. fjhn., að nm. áskilji sér rétt til að vera með brtt., sem fram kunna að koma við þetta frv., og að bera fram brtt. við það. En hvorki ég né hv. formaður n. höfum gert það við þessa umr: Ég get lýst yfir því, að ég ætla ekki að nota þennan rétt, nema ef svo skyldi fara, að brtt. hv. 10. landsk. þm. yrðu samþ. Þá kynni að vera, að ég bæri fram einhverjar brtt. við 3. umr. Ég ætla ekki að ræða þessar brtt. hv. þm., því að form. n. hefur tekið þær til athugunar, og hef ég engu við að bæta. Eins og hann gat um, hafa sams konar till. verið felldar í Nd., og það eru engin líkindi til, að samþ. þeirra hér yrði til annars en að tefja málið, og vafalaust mun hv. Nd. ekki breyta skoðunum sínum á þessu máli, þó að hv. 10 landsk. gerði ráð fyrir, að svo kynni að fara. Ég vil þó alls ekki ganga inn á það sem reglu, að seinni d., sem fær mál til meðferðar, taki allt gott og gilt, sem fyrri d. gerir. En í þessum efnum verður að taka tillit til allra aðstæðna. Í dag er 7. maí, og þingið hefur nú staðið eðlilegan þingtíma. Ég veit að vísu ekki, hvað lengi þetta þing á að vara, en ekki mun það eiga að afgreiða fjárlög, og yfirleitt virðist ekki liggja mikið eftir það. Ég gæti haldið, ef kosningar ættu að fara fram í vor, eins og virðist liggja í loftinu, þá færi kosningahugurinn að hvetja þm. til að starfa heima í héruðunum. En við erum hér yfirleitt fáir, sem viljum vera hér lengri tíma en nauðsynlegt er.

Það er rétt, sem hv. form. n. gat um, að þetta frv. er borið fram fyrir þingið sem samkomulagsmál milli tveggja flokka, sem standa að núverandi ríkisstjórn, en hún er nú senn á förum. Hv. 10. landsk. þm. hneykslaðist á því, að flokkarnir kæmu sér saman um meginatriði frv., áður en það er lagt fyrir þingið. Hann taldi þetta brot á þingræðinu, og löggjafarsamkoma landsmanna yrði tómur hégómi, ef slíku færi fram. Þetta hefur maður oft heyrt frá kommúnistum. Ég ætla nú ekki að fara langt út í þessa hlið málsins. Ég er búinn að sitja lengur á Alþ. heldur en hv. 10. landsk. þm. og hef fyrr en nú vitað samkomulag fara fram milli flokka um mál, áður en þau hafa verið lögð fyrir þingið. Ég hef verið í flokki, sem hefur verið þrisvar í stjórnarsamvinnu við Alþfl. og tvisvar við Sjálfstfl., og ég hef aldrei þekkt meiri né frekar í kröfu um, að allt væri fast bundið fyrir fram, heldur en þær, sem á sínum tíma komu fram frá Alþfl., t.d. á árunum 1934 til 1937. Það, sem olli samvinnuslitum Framsfl. og Alþfl., var, auk Kveldúlfsmálsins, ekki hvað sízt það, að Alþfl. vildi jafnan rígbinda atkvæði manna fyrirfram. Hins vegar vildi Framsfl., eins og hv. 10. landsk. þm. nú, hafa óbundin atkv. um einstök atriði í ýmsum málum. Ég skal játa, að þann flokksmanna sinna, sem frekastur var í þessum efnum, hafa þeir hrakið úr flokknum, og hefði samvinnan gengið skár, ef það hefði verið gert fyrr. Hv. 10. landsk. ætti því að líta nær sér; þegar hann hefur ádeilur út af þessu.

Hv. 10. landsk. var að tala um, að Framsfl. vildi hvorki aðhyllast stefnu Sjálfstfl., sem hann taldi vinna að því með þessum l. að leyfa auðmönnum og hátekjumönnum að hafa auð sinn sem mest í friði fyrir skattaálagningum, né heldur stefnu Alþfl., sem, eftir því sem þeir tala á mannfundum og eftir skrifum þeirra, virðist vera sú að taka allt af öllum nema aðeins þurftartekjur manna. Hitt er annað mál, hvort þessi flokkur mundi framkvæma þessa stefnu, ef hann mætti ráða. Ekki varð ég var við það í stjórnarsamvinnu við Alþýðuflokkinn, að hann væri harðari í skattakröfum þá heldur en góðu hófi gegndi. Það er alveg rétt, að Framsfl. fylgir hvorki stefnu Alþfl. né Sjálfstfl. Hann fylgir sinni eigin stefnu í skattamálum sem öðrum málum, og í skattamálum er stefna Framsfl. eðlileg og einföld. Hún er sú að taka af hátekjunum svo mikinn skatt sem mögulegt er án þess að lama viðleitni einstaklingsins til þess að afla sér tekna og eigna. Menn verða að finna hvöt hjá sér, og þeir verða að hafa einhverja möguleika til þess að afla sér tekna og eigna, því að annars væri ekki hægt að fá tekjur á þennan hátt, í ríkissjóðinn. Framsfl. fylgir nefnilega í skattamálum sem öðru raunhæfri og hófsamri pólitík og aðhyllist hvorki kenningar skýjaglópa né þröngsýnna sérgæðinga.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta, en ég álít, að stefna Framsfl. í þessum málum sé fyllilega eins skýrt afmörkuð og stefna Sjálfstfl. og alþfl. Meðan Framsfl. hafði forstöðu í þessu þjóðfélagi, þá var lagður sá grundvöllur í skattamálunum, sem hefur orðið til þess, að nú hefur ríkissjóður fullar hendur fjár. Alþfl. hvatti ekki til meiri skattaálagningar á þeim árum. En það er nú allt annað að vera í stjórnarandstöðu og geta sagt nokkurn veginn það, sem haldið er, að fólkið vilji heyra.