29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

106. mál, byggingarsamvinnufélög

*Sigurður Kristjánsson:

Ég skal ekki fara út í að ræða það, sem okkur hv. þm. N.-Þ. kann að bera á milli í þessu máli, ef málinu verður frestað. En ég verð þó að taka það fram, að með þessari brtt. er alls ekki farið fram á það eða ætlazt til þess, að þeir menn séu hlunnindalausir, sem í byggingarsamvinnufélögunum eru, en ekki hafa komizt að með að fá byggt. Því að það er ætlazt til þess, að eftir sem áður eigi félögin forkaupsrétt að húsunum eða íbúðunum, og ekki fyrir hærra verð, — ef ekki verður samkomulag með öðru móti um verðið —, heldur en metið er. Hitt er svo annað mál, að um húseignir, sem ekki hvíla lánsskuldbindingar á eða ábyrgðir ríkisins eða hlutaðeigandi félags, þá hygg ég, að þannig mundi litið á af dómstólunum, að húseiganda í því tilfelli væri frjálst að selja þessa húseign sína eins og hverja aðra skuldlausa eign. Ég hef talað um þetta við lögfræðinga, og þeir líta svo á, að þessar skuldakvaðir mundu falla niður, þegar menn hafa borgað skuldir sínar, sem húseignin hefur staðið fyrir, og leyst lánardrottin eða lánardrottna frá ábyrgðum. Ég vil fara fram á, að frestur á þessu máli verði takmarkaður, vegna þess að frv. er nú hér í fyrri d., og það er bersýnilegt, að ef miklar tafir verða á málinu, þá dagar það uppi á þessu þingi. En ég vænti, að það sé ekki tilgangur hv. þm. N.-Þ. með ósk hans um frest á málinu, að málinu verði með því banað.