24.04.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (1472)

73. mál, áfengismál

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mér virðist þetta mál, sem hér liggur fyrir, vera þess eðlis, að það snerti meira en flestar aðrar þáltill., sem hér hafa legið fyrir og frestað hefur verið umr. um, fjárhag ríkisins, og að þess vegna eigi þetta mál alveg tvímælalaust að fara til hv. fjvn.

Ég veit ekki betur en að á því fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fyrir þetta þing, séu áætlaðar nokkurra millj. kr. tekjur af víni og tollágóða af því, og þessi þáltill. gerir ráð fyrir, að þær tekjur hverfi með öllu. Og ef slíkt mál á ekki erindi til hv. fjvn., þá veit ég ekki, hverju á að vísa til þeirrar hv. n., og ég veit þá ekki, til hvers sú n. á að vera, ef þessi þáltill. á ekki að fara til hennar.

Ég geri það því skilyrðislaust að minni till., að þáltill. verði vísað til hv. fjvn., en ekki hv. allshn.