24.04.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (1476)

73. mál, áfengismál

*Sigurður Kristjánsson:

Það hefur komið fram till., sem er upphaflega frá hv. 1. þm. N.-M, um það að vísa málinu til hv. fjvn., en ég hef lagt til, að því verði vísað til allshn. Það er alveg rétt, sem hv. þm. tók fram, að þetta mál er í eðli sínu fjárhagslegs eðlis, og það hef ég getið um fáum orðum. En mál geta haft. fleiri en eina hlið, og það er vitað mál, að flm. hafa ekki flutt þarna till. sem fjárhagsmál. Það hefur ekki vakað fyrir þeim að svipta ríkissjóð þeim tekjum, sem hann hefur haft af áfengissölunni. Frá þeirra sjónarmiði hefur þetta sjálfsagt verið skoðað sem öryggis- og siðferðismál. Mér skilst, að hæstv. forseti hafi tekið undir þennan skilning þeirra, án þess þó að synja fyrir það, að málið sé einnig fjárhagslegs eðlis. Forseti hefur tekið undir þetta með því, að ákveða eina umr. um málið, eins og venja er að gera við mál, sem ekki eru aðallega fjárhagslegs eðlis. Ég verð þess vegna að halda fast við þá till. mína, að málinu verði vísað til allshn. Ég gat um það hér áðan, að þetta mál væri ekki eins einfalt og menn kynnu að ætla, og ég vil í því sambandi benda á það, að við málið er margt að athuga, sem er einmitt hlutverk allshn. Ég býst við, að hv. þm. líti svo á, að þetta fari í bága við l., og að fjalla um slíkt er m.a. hlutverk allshn.