24.04.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (1479)

73. mál, áfengismál

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég ætla mér ekki að blanda mér hér mikið í deilur manna um áfengismál. En síðasti ræðumaður, sem er ungur maður, sem á framtíðina fyrir sér (hann mun vera lögfræðingur að menntun), lét þau orð falla, að ég verð að mótmæla. Hugsunin í orðum hans var á þessa leið: Ef ég hef löngun til að gera eitthvað, þótt. það varði við lög, þá bý ég mér til mín eigin lög og geri það. Þetta er óheyrilegt af þingmannabekk, þótt hann sé það lítilmenni að hugsa þannig sjálfur, að ef mig langar til einhvers, þá bý ég mér til mín lög. Þetta er siðferðislaus og svívirðileg hugsun, er ég verð að mótmæla og vona, að fáir Íslendingar hafi, þó að þessi uppskafningur íhaldsins sé með hana.