04.05.1942
Neðri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

106. mál, byggingarsamvinnufélög

*Sigurður Kristjánsson:

Ég vil aðeins út af því, sem hv. þm. N.- Þ. sagði um það, að meiningin hefði verið að koma upp íbúðum, sem væru ódýrar til frambúðar, segja það, að þetta er ekki hægt í þeirri meiningu, sem hann leggur í það. Það er ekki hægt að halda húsunum neðan við það verð, sem hæfilegt er á hverjum tíma. Menn finna alltaf einhverjar leiðir til þess, þegar fram líða stundir, að koma verðinu upp. Það er alltaf svo með það, sem almenningur þarf að nota, að verðið fer eftir eftirspurninni. Ég skal játa það, að það er mér meinlaust, að þessi brtt. hv. þm. N.- Þ. verði samþ., og skal ég því ekki setja mig sérstaklega upp á móti því. Ég þarf ekki að svara því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, ég held, að hann hafi alveg misskilið tilgang l., hann er ekki eingöngu sá að hjálpa mönnum til þess að fá þak yfir höfuðið, heldur hefur þjóðfélagið viljað hjálpa mönnum til þess að eignast ódýrar íbúðir með þeim kvöðum, sem á þá voru lagðar. Ég held, að það viðurkenni flestir. nema þessi hv. þm., að það var ekki meiningin að setja nein meinhorn í þessa menn, heldur ætti að hjálpa þeim að losna undan þessum kvöðum, þegar þeir hefðu fullnægt þeirri skyldu að greiða lán sín. Þetta vona ég, að hv. þm. skiljist, þegar hann hefur athugað það betur.