04.05.1942
Neðri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

106. mál, byggingarsamvinnufélög

*Sveinbjörn Högnason:

Ég þarf ekki að svara því mikið, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði um þetta, því að það finnur hver maður, á hverri sanngirni það er byggt, enda er það í samræmi við brtt. hans. Hv. þm. vill halda því fram, að það sé alls ekki hægt að fullnægja þeim tilgangi, sem ég tel, að þessi l. hafi. Ég taldi það, þegar þessi l. voru sett, að það ætti ekki aðeins að tryggja einstökum mönnum ódýrar íbúðir, heldur ættu þær að vera ódýrar til frambúðar, bæði hér og í öðrum bæjarfélögum landsins. Við vitum það, að ein höfuðmeinsemdin í þessum bæ er nú, hvað húsaleigan er há, það er hún, sem allt ætlar að drepa í þessum bæ, og þetta er jafnframt ein mesta meinsemdin í þjóðfélagi okkar. Að þetta hafi ekki verið tilgangurinn með frv. um byggingarsamvinnufélög, hygg ég, að þessi hv. þm. geti manna sízt borið um, þar sem hann var þá ekki hér á Alþ. Ég hygg, að hann viti ekki betur um það en ég. Hv. þm. sagði, að það hefði ekki verið tilgangur l. að hjálpa mönnum til þess að eignast þak yfir höfuðið. Ég vil þá spyrja þennan hv. þm.: Til hvers er verið að setja slík ákvæði, ef ekki er ætlazt til, að þau komi að neinu liði, ef það er aðeins meiningin með því að koma l. fram að leysa kvaðir þeirra af, ef einstaklingum er það heppilegt? Hvers konar löggjafarstarfsemi er þetta?

Ég skil það náttúrlega frá sjónarmiði slíks manns. En það var aldrei tilgangurinn, að það væri nein sérstök dægurlöggjöf, sem væri verið að setja með samvinnulöggjöfinni, heldur var það ein stoðin til þess að byggja upp heilbrigt viðskiptalif í okkar bæ. Hv. 5 þm. Reykv. sagði, að menn mundu alltaf finna einhverjar leiðir til þess að komast undan þessum kvöðum. Það er eðlilegt, að slíkur maður telji það, því að hann mundi ekki vera í vandræðum með að finna leiðirnar. En ég fullyrði, að á þessari löggjöf og löggjöfinni um verkamannabústaði er enginn eðlismunur, aðeins stigmunur. Í verkamannabústaðina hefur beinlínis verið veitt fé, í staðinn fyrir það, að féð hefur verið lánað í samvinnubyggingarnar, vegna þess að svo var litið á, að þar væri um efnaðri menn að ræða, en ábyrgðin af þessu láni fellur auðvitað á ríkið, og þess vegna er ekkert vit í, að eigendur geti notað þessa eign í brask. Vitanlega, ef hægt er að afnema allar kvaðir, eins og farið er fram á með brtt. á þskj. 274, er hægt næst að koma með brtt. um það, að ef verkamaður vill borga ríkisstyrkinn, þá sé hann laus við alla ábyrgð og geti selt þessa húseign, sem hann á í verkamannabústöðunum, hverju verði, sem honum þóknast. Það er augljóst, að hér er ekki um neinn eðlismun, aðeins stigmun, að ræða. Þetta verða menn að meta við sig. Ef það á að fara inn á þá braut, að leyfa mönnum að borga upp, þá er búið að afnema lögin, þá eru þau orðin gagnslaus. Það er það, sem er hér á ferðinni frá mínu sjónarmiði.