11.05.1942
Efri deild: 54. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

92. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það, sem hér er farið fram á að breyta í l. um vátryggingarfélag fyrir fiskiskip, sem er hin svo nefnda Samábyrgð, er ákvæði, sem hefur staðið frá upphafi í þessum l., sem er á þá leið, að Samábyrgðinni er ekki heimilt að taka í eigin ábyrgð hærri upphæð en 15000 kr. í einu skipi. Er þetta ákvæði miðað við það, að tryggt sé í Samábyrgðinni beint, en ekki miðað við endurtryggingu, sem Samábyrgðin tekur á skipum fyrir bátaábyrgðarfélög eftir l. um vátryggingarfélög fyrir vélbáta. Hér er farið fram á, að þessi upphæð verði hækkuð í 35000 kr., sem er eðlilegt eftir þeim verðbreytingum, sem orðið hafa, síðan l. voru sett, því að þetta ákvæði l. um 15000 kr. takmarkið er frá árinu 1921. Og ég tel, að með þessari hækkun á því sé sízt of langt gengið.

Það er óskað eftir þessari breyt. af stjórn Samábyrgðarinnar, og sjútvn. leggur til, að þetta verði samþ. eins og stjórn Samábyrgðarinnar leggur til.