24.04.1942
Neðri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

31. mál, til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar

*Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti! N. hefur haft þetta mál til athugunar og leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum smávægilegum breyt. Hún óskar þó að taka fram, alveg eins og hún gerði í nál. um frv. til l. um rafveitur ríkisins, að eðlilegasta leiðin og leiðin, sem n. telur að fara beri í þessu efni, er sú, að ríkið taki að sér að leggja háspennuveitur út frá orkuverum og að viðkomandi stöðum, sem eiga að nota orkuna, en þeir staðir hafi svo ekki með annað að gera en lágspennuveiturnar um sjálft rafveitusvæðið. Þetta er hægt að gera, ef frv. um rafveitur ríkisins verður samþ., sem, allar líkur virðast benda til, og verður þá möguleiki fyrir hendi til þess að fara þá leið, sem n. telur eðlilegasta. Þó telur n. rétt og sjálfsagt, ef þessi möguleiki er útilokaður og sú leið ekki fær, að leiðin, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sé farin, og sé það varaleið. N. vill leggja áherzlu á, að hún telur hina leiðina aðalleiðina, en þessa einungis sem varaleið.

Við frv. hefur n. svo gert fáar smávægilegar breyt., sem lýst er á þskj. 202 og ég geri ekki ráð fyrir að rekja hér nákvæmlega. Þær eru allar eða fle5tar skiljanlegar. Í brtt. við 2. gr. 1. tölul., er gert ráð fyrir, að það verði ekki bundið í l., að stofnfé þess félags, sem. leyfið fær, verði bundið við 900000 kr., heldur að það verði nægilegt stofnfé að dómi ráðuneytisins, og aðeins tilskilið, að félagið ráði yfir 900000 kr. til framkvæmdanna.

Skv. 2. tölul. skal gerð veitunnar vera þannig, að öruggt sé, að hún fullnægi í framtíðinni þeim byggðarlögum, sem ætlazt er til, að fái rafmagn frá henni.

Til þess að ekki sé loku fyrir það skotið, að ríkið geti gripið inn í, þegar það telur þess þörf, þá er lagt til, að ríkisstj. hafi rétt til að kaupa veituna, þegar hún telur ástæðu til þess, en í frv. er tímatakmarkið sett í fyrsta lagi, þegar 10 ár eru liðin af leyfistímanum.

Í 4. lagi er lagt til af n., að ef sérleyfið er ekki notað næstu 5 árin, eftir að það er veitt, fellur það niður og að það sé ekki framseljanlegt. Þetta er gert til áherzlu um, að leyfið verði ekki notað í brask, heldur verði þeim, sem það fær, gert að skyldu að framkvæma verkið:

Við 6. tölul. b vill n. gera þá breyt., að sérleyfishafi verði einungis undanþeginn greiðslu á innflutningsgjöldum á efni og tækjum til stofnunar veitunnar, en í frv. er gert ráð fyrir slíkri undanþágu á öllu efni til veitunnar. Þetta mun vera nær því, sem gert var, þegar Sogsvirkjunin var gerð.

Breyt. við 4. gr. er meira orðalagsbreyt. en efnisbreyt.

N, leggur til, að frv. þetta verði samþ. sem varamöguleiki fyrir þá hreppa, sem hér um ræðir, ef ríkissjóður skyldi ekki sjá sér fært að leggja út í framkvæmdir skv. frv. um rafveitur ríkisins.

Ég sé svo ekki þörf á að orðlengja þetta frekar. Flm. frv. fóru þess á leit, að umr. um brtt. yrði frestað eða þær teknar aftur til 3. umr., vegna þess að þeir vildu athuga þær og ræða nánar við n., án þess að það þyrfti að valda töfum á gangi málsins. N. hafði ekkert við það að athuga og gat gengið inn á, að afgreiðslu á till. væri frestað.