24.04.1942
Neðri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

31. mál, til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar

*Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem hann beindi að nokkru til okkar flm. þessa frv. Ég vildi annars mega vænta þess, að þetta mál gæti gengið tafarlítið til 3. umr., einkum þar sem n. var svo góð að fresta meðferð á brtt. þangað til, og ekki sízt þar sem tíminn er nú orðinn naumur.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. 4. þm. Reykv. vildi ég upplýsa það, að ráðuneytið hefur óskorað vald til þess að reisa hvers konar skorður almenningi til tryggingar, til þess að raforkan verði ekki seld fólkinu dýrara en nauðsyn ber til. Þetta er tekið fram í l., sem skírskotað er til í frv., og er svo vel um þetta búið, að það er engin hætta á, að fólkið þurfi að borga of mikið fyrir raforkuna. Þannig álít ég líka, að við verðum að ganga frá þessu máli, að raforkan verði ekki seld dýrara en nauðsyn krefur. Samkv. þessu frv. er það svo að vísu, að hvaða félagsskapur sem er getur lagt fram fjármagnið, en samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef úr þeim þremur sveitarfélögum, sem málið snertir, held ég, að málið sé þannig komið, að það séu sveitarfélögin sjálf, sem fái leyfið, og vil ég vona, að það félag gæti þess, að ekki verði plokkað af fólkinu að nauðsynjalausu. Ég hef átt tal við þá menn, sem hafa þennan undirbúning með höndum, og þeir hafa látið þetta sama í ljós. Enda dreg ég það ekki í efa, að þannig verði frá gengið, að raforkan verði ekki seld dýrara en þörf er á.

Ég vona svo, að ég hafi með þessu svarað því í fyrirspurn hv. 4. þm. Reykv., sem hann lagði mesta áherzlu á.