29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

31. mál, til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar

*Frsm. (Emil Jónsson):

Hv. fyrri flm. frv. fór um brtt. iðnn. nokkrum orðum. Hann sagði reyndar í upphafi ræðu sinnar, að þeirra hefði ekki verið minnzt við 2. umr. En þá var brtt. lýst; þó að ekki færu fram umr. um þær þá. Og af því að þeim var lýst þá, fannst mér ekki ástæða til að taka það upp aftur nú.

Hv. fyrri flm. sagði, að hann ætlaði ekki að fjölyrða um þær brtt., sem, hann teldi þýðingarlausar, heldur að eins ræða um hinar tvær, sem honum virtist mundu vera til spillis, ef samþ. væru. Þetta fannst mér ekki unnt að misskilja. Þó að hann hefði góð orð um brtt. að öðru leyti, þá var þetta sú skipting, sem hann hafði á brtt., án þess að rökstyðja það, því að hann fór ekki inn á brtt., sem hann taldi þýðingarlausar eða þýðingarlitlar. Ég tel þessar brtt., sem hann taldi þýðingarlausar, ákaflega nauðsynlegar. Um 1. tölul. d., um það, að ef sérleyfi er ekki notað næstu 5 árin, eftir að það er veitt, og um að fella þetta ákvæði burt, skal ég segja það, að það hefur verið venja hér, a.m.k. þau þing, sem ég hef setið á, að þegar sérleyfi hafa verið veitt, hafa þau verið bundin við vissan tíma, þannig að ef það, sem sérleyfið er um, verður ekki framkvæmt á þeim tíma, þá falla þau niður. Það kann að vera, að aðrar reglur hafi verið til um þetta, áður en ég hef átt sæti á þingi. En þetta hefur nú verið svona upp á síðkastið, og ég taldi a.m.k. rétt, að sama regla væri höfð um þetta í þessu máli, sem áður hefur gilt. En ef sérleyfishafi af einhverjum ástæðum er þess ekki megnugur að leysa þessa framkvæmd af höndum á þessu árabili, en annar aðili er til, sem þess væri megnugur að leysa það af höndum, þá getur það staðið í vegi fyrir framkvæmdum í málinu, að þetta er bundið jafnvel við 5 ára lágmark, þó að jafnvel ekkert sé gert, þannig að sá, sem sérleyfið fær nú eða síðar, heldur því, þó að hann geri ekki neitt, þó að annar gæti framkvæmt verkið, ef ráðuneytið gæti yfirfært sérleyfið yfir á þann aðila. Það mætti kannske skjóta því hér inn í, að ef engir möguleikar eru á framkvæmd í þessum efnum á þessu 5 ára tímabili, þá er ekki annað en að fá sérleyfið framlengt. Og ef ekkert er annað á móti þessu atriði málsins, þá sé ég ekki, að það geti valdið erfiðleikum, því að mér finnst ekki nein ástæða til að ætla, að slík framlenging mundi ekki fást. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að þetta ákvæði verði haft í frv., sem iðnn. hefur stungið upp á í þessu efni, enda þótt nokkrir hv. þm. séu á móti því, að þetta verði fellt inn í frv.

Hvað síðari brtt. við kemur, sem hv. fyrri flm. taldi líka, að mundi heldur spilla, sem er um það, þar sem í frv. stendur, að efni og tæki, sem notuð eru til veitunnar fyrstu 5 ár leyfistímans, frá því byrjað er á verkinu, skuli undanþegin innflutningsgjaldi, er í brtt. gert ráð fyrir, að þetta gildi um það efni og þau tæki, sem yfirleitt þarf til stofnunar veitunnar, og ekki annars, — er það að segja, að ef þessi fríðindi eru bundin við efni og tæki, sem nota á næstu 5 árin eftir að sérleyfið er veitt, þá fer það að verða svo um sumt af þessu, sem þarna heyrir undir, að ég efast um, að þetta ákvæði mundi verka heppilega gagnvart öðrum, sem engin slík fríðindi hafa fengið. Og ég veit ekki heldur, hvað kynni að teljast tæki tilheyrandi veitunni fyrstu 5 ár starfstímans. Mætti þar kannske telja ýmislegt, sem ekki heyrði beint til stofnkostnaðar veitunnar sjálfrar. Iðnn. hefur viljað binda þessi fríðindi eingöngu við það efni, sem til stofnunar veitunnar fer, og ekki annað. Og þá er ljóst, við hvað er átt, og eru það sams konar fríðindi, er aðrir aðilar hafa fengið í tilsvarandi tilfellum.

Um hinar brtt., sem hv. fyrri flm. kallaði þýðingarlausar, skal ég ekki fjölyrða, enda hef ég getið þeirra áður. Hitt undrar mig nokkuð, að hv. 8. landsk. (EE) skuli, eins fortakslaust og mér virtist hann tjá, vera tilbúinn að ganga frá till. sínum, sem hann með n. hefur gert, og inn á þessar till. hv. flm. gegn brtt., því að ég vissi ekki annað en að það væri fullkomið samkomulag innan iðnn. um brtt. eins og þær lágu fyrir.