24.04.1942
Efri deild: 40. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

13. mál, skemmtanaskattur

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég þarf ekki margt að segja, þar sem brtt. liggja ekki fyrir út af þeim ágreiningi, sem varð í n.

Út af þessari hækkun úr 80% í 200% vil ég segja það, sem er reyndar öllum kunnugt, að þótt þetta líti ægilega út á pappírnum, þá er þetta lítill viðauki. Ég ætla, að það muni vera 25 aurar á miða eða eitthvað þess háttar. Mér virtist hv. 10. landsk. búast við, að verð aðgöngumiða mundi hækka meira en skatthækkuninni næmi, en mig minnir, að það sé þannig. að prentað sé á hvern aðgöngumiða, hvað skatturinn er. Miðarnir mundu vera áfram í sama verði, þannig að sama verðið yrði á þá prentað, en aðeins bætt við skatthækkuninni.

Ég bið hv. 1. þm. Eyf. afsökunar á, að ég skuli ekki hafa haft rétt eftir honum fyrirvara hans. Ég skildi hann svo, að hann hefði einnig verið á móti hækkuninni, en það er ekki, og leiðréttist það þá hér með.

Viðvíkjandi breyt., sem hv. meðnm. mínir ympruðu á í n. og eins hér við umr. um það, hvert skemmtanaskatturinn ætti að renna, þá fer ég ekki langt út í það, úr því að engin brtt. liggur fyrir, en það er veruleg ástæða á móti að bera fram slíka brtt., að hún mundi valda ágreiningi milli d. og hæpið, að málið kæmist í gegnum þingið. Ég vil aðeins segja, að það er rétt, að það virðist hart að styðja á þennan hátt leikhús í Reykjavík, þar sem eru kannske bezt lífsskilyrði, en sannleikurinn er sá, að til þjóðleikhúss eru gerðar kröfur, sem eru umfram þær, sem gerðar eru til gróðarekstrar. Það eru gerðar kröfur til, að þau haldi uppi leikmennt, sem er umfram það, sem praktískast er fyrir leikhús, og þegar þau eru sett í höfuðborgina, þá eru þau auðvitað til mests gagns fyrir þá borg, en þau eru sett þar af því, að flestir koma þó þangað og önnur leikhús geta notið þeirra mikið í sambandi við leikmennt, skóla og allar aðferðir, sem þar eru notaðar.

Ég vil svo að endingu mæla með, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem n. leggur til.