17.04.1942
Efri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

58. mál, Baldur Óli Jónsson, tannsmiður

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Herra forseti ! Þetta frv., sem borið er fram af hv. 2. þm. S.- M. og hv. þm. Vestm. ásamt mér, fer fram á heimild til handa ríkisstj. til að veita Óla Baldri Jónssyni tannlækningaleyfi. Ástæðan fyrir frv. er sú, að maður þessi, sem hefur stundað tannlækninganám í Þýzkalandi um 5 ára skeið, hefur ekki enn fengið leyfi til að stunda tannlækningar. Allshn. hafði tal af landlækni og fékk eftirfarandi upplýsingar hjá honum: Ástæðan fyrir því, að fullkomið tannlækningaleyfi hefur enn ekki verið veitt þessum manni er sú, að hann hefur stundað nám við þá skóla í Þýzkalandi, sem fullnægja ekki þeim skilyrðum, sem íslenzk löggjöf setur fyrir því, að menn geti fengið réttindi sem fullkomnir tannlæknar hér á landi. En í l. um tannlækningar frá 1929 er meðal annars það ákvæði, að menn skuli hafa lokið prófi við einhvern þann tannlæknaskóla, sem viðurkenndur hefur verið af heilbrigðisstjórninni, ef þeir eigi að fá fullkomin tannlæknaréttindi. Í Þýzkalandi er til tvenns konar kennslufyrirkomulag í þessari grein. Annað er eldra, og þar er aðaláherzla lögð á tannsmíðar, en auk þess er kennt að draga út og fylla tennur í framhaldsnámi. Hitt fyrirkomulagið er yngra og fullnægir þeim kröfum um tannlækningar hér á landi, sem settar voru með lögum 1941. N. hefur tekið !þessa skýringu landlæknis til greina, og til að fyrirbyggja allan misskilning, hefur hún fallizt á að breyta orðalagi frv. þannig, að í stað fullkomins tannlæknaleyfis sé ríkisstj. heimilt að veita þessum manni rétt til að draga út og gera við skemmdar tennur, þar sem hann hefði getað fengið þessi réttindi í Þýzkalandi, ef hann hefði ílenzt þar. Meiningin með brtt. er að ganga ekki á rétt tannlækna landsins, því að þeir hafa með sér félag, eins og kunnugt er, og hafa lagzt á móti því, að þessum manni yrði veitt fullkomið tannlæknaleyfi. Maður þessi er búsettur austanlands og hefur stundað þar tannsmíðar. Á Austurlandi er enginn tannlæknir, og svo hefur verið lengi, til mikils óhagræðis fyrir fólkið. Þeir, sem þurfa að fá smíðaðar tennur, hafa þurft að fara til Akureyrar eða Reykjavíkur, sem kostar bæði mikinn tíma og mikla peninga. En miklu meira virði er að geta látið gera við tennur, og sýnist ástæðulaust, þar sem þessi maður getur unnið þetta verk, að heimila honum ekki rétt til að gera það. Þess vegna hefur n. orðið sammála um, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem eru í nál. á þskj. 170 og ég hef áður drepið á. Ég vænti þess, að hv. d. sé sammála n. um, að þetta geti orðið til bóta fyrir þann landsfjórðung, sem hér er um að ræða.