25.03.1942
Efri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

55. mál, lækningaleyfi

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Við 1. umr. um frv. til l. á þskj. 80 um breyt. á l. um skipun héraðslækna, verksvið landlæknis og störf héraðslækna, þá minntist ég á þetta frv. örlítið og gat þess þá, að það væri flutt af allshn. sem afleiðing af frv. á þskj. 80. Eins og kemur fram í grg. fyrir því frv., þá lætur landlæknir skina í það, að hann telji ekki ósennilegt, að þó að það frv. verði að lögum, þá geti svo farið, að það komi ekki að fullum notum til þess að bæta úr læknaskorti úti á landi, vegna þess að það kunni að vanta menn í þessar stöður, sem í því frv. er ráðgert að stofna. Og allshn. var það ljóst, að þarna var um töluverða annmarka að ræða, og þó að hún gerði ráð fyrir því, að nokkur bót væri að því að stofna þessi 4 aukalæknisembætti, gæti svo farið, að erfitt reyndist að fá menn í þau. Þessi breyt., með frv. á þskj. 80, miðar til þess m.a. að bæta fyrir þeim læknishéruðum úti á landi, sem undanfarin ár hafa staðið læknislaus, auk þess sem frv. er líka ætlað að bæta úr tilfinnanlegum vandræðum, sem eru í því fólgin, að margir þjónandi héraðslæknar eiga örðugt með, og þeim er jafnvel ókleift að fá í veikindaforföllum eða vegna annars lækna fyrir sig til að gegna læknisembætti í fjarveru sinni, þannig að það mun vera álit læknastéttarinnar, að læknar geti tæplega að heiman komizt af þessum sökum. Til þess nú að ráðstafanir til úrbóta í þessu efni, sem felast í frv. á þskj 80, geti komið að notum, fannst n. rétt að setja það ákvæði inn í l., að ráðh. hefði heimild til að setja það að skilyrði fyrir ótakmörkuðu lækningaleyfi til kandidata, að umsækjendur slíkra leyfa hefðu gegnt læknisstörfum hjá héraðslækni um 6 mánaða tíma. Mér virðist þessi kvöð á læknakandidötum ekki vera mjög tilfinnanleg. Og mér hefur skilizt af viðtali við suma lækna, að líkur væru til, að læknakandidatar mundu taka þessu fremur liðlega.

Það, hefur verið á það bent, að af þessu gæti leitt það, að læknakandidatar yrðu fyrir óþægindum af þessu, þannig að það tefði þá í fyrirhuguðu framhaldsnámi. Ég hygg, að það þyrfti ekki að verða mjög tilfinnanlegt, fyrst og fremst vegna þess að takmarkið er sett mjög hóflega. 6 mánuðir er lengsti tíminn, sem heimilað er að setja að skilyrði, að þeir þjóni á þennan hátt. Og ef mjög margir læknar útskrifast eitthvert ár, þannig að margir yrðu að bíða eftir að geta unnið af sér þessa þengskyldu, þá virðist mér enginn vandi að bæta úr því með því að stytta tímann, sem þeir þyrftu að .starfa sem læknar í héraði, áður en þeir fengju ótakmarkað lækningaleyfi, t.d. niður í 4 mánuði. Þetta hygg ég því ekki mikinn agnúa.

Ég legg áherzlu á, að ég tel, að breyt. á l. um skipun læknishéraða komi að fremur litlum notum. nema ákvæði þessa frv., sem hér liggur fyrir, verði lögtekin samtímis því frv.

Ég held, að þessar tilraunir, sem gerðar eru til þess að bæta úr læknisleysi úti á landi, séu þannig; að mjög sé í hóf stillt öllum kvöðum. bæði á ríkinu og eins á læknakandidötum. Og þó að skoðanir geti e.t.v. verið skiptar um gagnsemi af þessum breyt., þá held ég tvímælalaust, að hæstv. Alþ. geti ekki sýnt það tómlæti að gera ekki þessa tilraun, sem er hvort tveggja í senn ekki mjög útlátamikil fyrir ríkissjóð og einnig mjög hófleg í garð læknastéttarinnar. Ég vænti þess því fyllilega, að hv. þd. taki þessu frv. einnig með fullum skilningi og láti það fá framgang.

Ég skal geta þess að endingu, að fyrirsögn l., sem þetta frv. er breyt. við, er bæði löng og hálf-leiðinleg. L. heita „Lög um lækningaleyfi, um réttindi og skyldur lækna og annarra, er lækningaleyfi hafa, og um skottulækningar.“ N. fannst fyrirsögnin löng og leiðinleg. Sjálfur er ég ekki orðhagur. Og ég veit ekki fyrir víst, hvort n. sér ástæðu til þess að gera till. síðar til breyt. á fyrirsögn l. En ég skýt þessu svona fram til hv. þdm., ef þeir fyndu ástæðu til að gera brtt. um fyrirsögnina. Og þá mundi n. taka henni mjög vingjarnlega.