25.03.1942
Efri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

55. mál, lækningaleyfi

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Hv. þm. Hafnf. (BSn) hefur hreyft hér nokkrum aths. við þetta frv., sem ég tel rétt að fara um nokkrum orðum.

Fyrstu aths. hans um þá erfiðleika, sem þetta frv., ef samþ. verður, leggur á leið kandidata, hef ég svarað. áður í fyrri ræðu minni. Ég get ekki fundið, að ráðstafanir þessa frv. geti orðið til þess að tefja fyrir læknakandidötum. Því að þó að það sé svo, að kandidötum reynist oft erfitt að geta uppfyllt skilyrði um það að vera við spítala, þá breytir það engu um það mál, sem hér er á ferð. Það er komið svo því máli sem er. Og þó að þessari kvöð sé bætt á þá, þá er hér um að ræða í mesta lagi 6 mánaða tíma, sem þeir verða að fórna, þó gegn greiðslu fyrir vinnu sína, áður en þeir fá ótakmarkað lækningaleyfi. Og ég held, að það komi varla til þess, að svo margir kandidatar útskrifist á ári, að þessi ráðstöfun tefji þá tilfinnanlega. Þó að t.d. 10 kandidatar útskrifuðust á ári, held ég að þetta mundi ekki koma að sök. Mér er sagt; að það séu a.m.k. 3 þjónandi læknar — nú, sem hafi bráða þörf á að geta losnað frá sínum læknishéruðum, og a.m.k. 3 héruð eru nú læknislaus. Mér virðist það heldur ekki ótrúlegt, að fleiri héraðslæknar þægju það þakksamlega að fá hvíld tveggja til þriggja mánaða tíma.

Þá benti hv. þm. á, að hann efaðist um, að héruð þau, sem nú eru læknislaus, hefðu mikil not af þessu ákvæði. Ég skal . játa, að það er engin trygging í þessu ákvæði fram yfir það, ef hægt væri að fá skipaða lækna í þau héruð, sem standa auð eða mjög erfitt er að fá lækna í, og þeir læknar héldu svo héruðunum áfram. En það eru þó nokkrar líkur til þess, að við það að mennirnir kynnast héruðunum af að þjóna þeim í 6 mánuði, gæti farið svo, að þeim litist ekki eins illa á að sækja um þau eins og ef þeir hefðu ekkert kynnzt þeim. Og í öðru lagi væri það þó bót, ef með þessum ráðstöfunum væri hægt að tryggja það, að héruð yrðu þó ekki læknislaus, þó að þau yrðu e.t.v. að búa við það að hafa ekki sama lækninn lengur en í 6 mánuði, þó að ég auðvitað játi, að það er ekki sérstaklega skemmtilegt fyrir héruðin að geta ekki gert ráð fyrir, að nokkurn tíma verði læknir þar lengur .en í 6 mánuði.

Þá kem ég að þriðju aths. hv. þm. Hafnf., þar sem hann taldi, að meiri trygging væri í því fólgin að stofna 3 föst læknisembætti, sem læknar yrðu skipaðir í til að þjóna læknishéruðum á sama hátt og kandidötum er ætlað eftir þessu frv. En ég er ekki viss um, að það sé mikil trygging í því fólgin, og það er hreint frá, að nein trygging sé í því fólgin, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga. Það kann að vera meiri trygging í því fyrir þá, sem vilja fá föst embætti, heldur en í ákvæðum frv. Hitt kann að vera á meiri rökum byggt; að þau fjárframlög, sem í frv. á þskj. 80 er gert ráð fyrir, séu of lág. Er það er bara framkvæmdaratriði, sem við getum bætt úr, þegar við fáum reynslu fyrir því, að þau séu of lág. Ef svo reynist, að það sé aðalagnúinn á ákvæðunum um aðstoðarlæknana, að launin séu of lág þeir eiga að fá 300 kr. á mánuði, auk húsnæðis og aðhlynningar hjá héraðslækni — þá teldi ég rétt að hækka þessi laun. En frá mínu sjónarmiði er sízt betra að fara inn á þá braut að stofna ein 3 ný embætti.

Þá kom hv. þm. Hafnf. að því, sem margendurtekið var í umr. um frv. á þskj. 80, að laun héraðslækna í erfiðari og verri héruðum væru allt of lág. Mér hefur aldrei dottið í hug að bera á móti því. Hitt hef ég sagt, að ég teldi, að tímarnir, sem við nú lifum á, séu ekki vel til þess fallnir að taka nú einstaka liði út úr launal. og breyta þeim. Ég man ekki betur en það kæmi fram á þingi 1914, að það þyrfti að endurskoða launal. Því var ýtt frá sér þá, og þingið hefur ýtt því frá sér til þessa dags. Og ég tel, að einni þingn. sé með öllu ofvaxið að takast það starf á hendur og að það sé yfirleitt mjög vafasamt að fara inn á þá braut að taka nokkurn hluta einstakrar launastéttar til þess að breyta kjörum þess hluta stéttarinnar.

Þá minntist hv. þm. Hafnf. á, að sér fyndist óviðeigandi af n. að ganga fram hjá formanni læknafélags Íslands um það að bera þetta mál undir hann. Þessa aths. kom hann með viðvíkjandi hinu frv. í fyrradag. Og ég get upplýst það, að um leið og þetta frv., sem hér liggur fyrir, var sent í prentun, var formanni Læknafélags Íslands sent það. Þó að n. hafi ekki kallað hann á sinn fund, hefur hann því átt kost á að gera sínar aths. við frv., hefði hann óskað að gera það.

Þó að hv. þm. Hafnf, hafi gert þessar aths., sem ég tel eðlilegar, þótt hins vegar ég geti ekki gengið inn á þær, þá vænti ég þess, úr því að hann álítur eins og við allir, að það þurfi að gera tilraunir til þess að bæta úr þeim læknaskorti, sem hefur verið úti um sveitir landsins, að hann sjái, að rétt sé að láta þetta hóflega frv. ná fram að ganga og láta reynsluna skera úr um það hvort ákvæði þess verði að notum eða ekki. Ég hef trú á því, ef þessi frv. verða samþ., þetta og frv. á þskj. 80, þá verði nokkur bót ráðin á ástandinu í þessum efnum, þó að e.t.v. verði ekki full bót á því ráðin með þessum ráðstöfunum. Og þá er haldið í áttina, og ég veit, að hverri umbót í þessu efni verður þakksamlega tekið. Vil ég því vænta þess, að hv. þm. Hafnf. geti léð þessu máli stuðning, þó að honum finnist, að ýmislegt í búningi þess mætti betur fara.