25.03.1942
Efri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

55. mál, lækningaleyfi

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það eru bara fáein orð út af þessari ræðu hv. frsm. Ég vildi bara taka það dálítið skýrar fram, hvað ég átti við með stofnun aukalæknisembætta. Það er sitt hvað, það, sem ég meinti með aukalæknisembætti annars vegar, og fast héraðslæknisembætti hins vegar. Það er nákvæmlega það sama og með ráðherrana, að sumir þeirra hafa enga stjórnardeild, þó að þeir starfi sem ráðh. Ég ætlast til, að ef þessi aukalæknisembætti verði stofnuð, þá verði í þeim læknar, sem fari úr einum stað í annan. Það mundu frekar fást ungir menn til þess að fara í þessi embætti heldur en í þau héruð, sem nú eru mjög miklir örðugleikar á að fá lækna skipaða í. Og í skipunarbréfum slíkra aukalækna væri ákveðið, hve lengi þeir ættu að vera í slíkum héruðum í einu, og þá vissu þeir, að þeir yrðu þar ekki eilíflega grafnir. En það fyrirkomulag að hafa slík aukalæknisembætti væri trygging fyrir því, að héruðin fengju að njóta sama læknis lengur en aðeins í nokkra mánuði. Þessi skylda, sem í þessu frv. er lögð læknum á herðar um þjónustu í héruðum, nær ekki nema til kandidata, sem eru óreyndir sem læknar að öllu leyti. Og ég efast um, að það væri nokkur bót fyrir héruðin, sem er eitt er að fá lækna í, að slíkri skipan yrði á komið, því að ég er sannfærður um, að ef samþ. verða till., sem fram á er farið í frv., verður á eftir minni áhugi fyrir því að fá góða, fasta lækna í þessi lakari héruð, vegna þess að nýir kandidatar færu í þau, sem þó fóru þaðan, þegar þeir væru búnir að fá nokkra reynslu í starfinu, og nýr maður kæmi í staðinn. En ef hinn hátturinn er hafður, eftir því sem ég legg til, þá er það trygging fyrir því, að ungir læknar mundu sækja um þessi embætti fremur en lélegu héruðin, sem nú eru óskipuð.

Þessar aths. mínar eru gerðar frá eigin brjósti, en ég er ekki að ræða neinar skoðanir,. sem séu uppi meðal læknafélagsins. Vildi ég, að hv. n. tæki þessar aths. til athugunar milli umr.