30.03.1942
Efri deild: 24. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

55. mál, lækningaleyfi

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég vil ekki hafa neitt á móti því beint, sem hv. 2. þm. S: M. fór nú fram á, því að ég vonast til þess, að n. taki til greina þau rök, sem formaður læknafélagsins ber fram. Þess vegna finnst mér ekki ástæða til annars en að vera liðlegur við hv. n. í þessu máli. Set ég mig því ekki á móti því, að málið fari nú til 3. umr.

Úr því að hæstv. forsrh. er nú staddur hér í hv. d., langar mig til þess að beina dálitilli fyrirspurn til hans um atriði, sem mér var ókunnugt fyrr en í dag. Þegar þetta frv., sem tekið var af dagskrá hér áðan, var til umr, hér, var það tekið fram, að það, sem væri þess valdandi, að læknar fengjust ekki í erfiðari og fólksfærri héruðin, væri, að launin væru svo lág fyrir það, og þeir treystu sér ekki til að fara í þessi héruð þess vegna. Og báðir hv. þm. N.- M. vildu gjarnan ganga inn á það, að eitthvað yrði gert í þeim efnum til að bæta kjör lækna, til þess að þeir fengjust í þessi erfiðu héruð. Nú frétti ég það af viðtali við formann Læknafélags Íslands, að hann hefði farið þess á leit við landlækni, að hann væri því meðmæltur til hæstv. ríkisstj. að læknar fengju að hækka taxta þann, sem samþ. var í samræmi við dýrtíðina, en landlæknir hefði verið því mótfallinn, en verið þeirrar skoðunar, að læknar ættu að fá einhverjar uppbætur á laun sín, eins og aðrir verkamenn í landinu, og hefði viljað fara þá leið, að læknar fengju fulla dýrtíðaruppbót af 650 krónum á mánuði, þrátt fyrir það að þeir hefðu ekki nema 200 eða 300 kr. á mánuði í grunnkaup. Þetta hafði formaður læknafélagsins gengið inn á til samkomulags, og það því frekar sem hann bjóst við, að þetta yrði afgr. frá ríkisstj. Nú sagði hann mér, að þetta hefði staðið svona, án þess að hann hefði fengið neitt svar. Og nú í vor, sem leið, hefði hann talað við þáverandi félmrh. um þetta atriði, og hann hefði ekki viljað gera neitt í því fyrr en á haustþinginu, því að það var um það leyti, sem vitað var, að haustþing mundi koma saman. Á haustþinginu hefði þetta verið lagt fyrir hv. fjvn. og fjvn. hefði samþ. að verða við þessari beiðni. Og svo hafði formaður læknafélagsins álitið, að þetta væri þar með klappað og klárt og læknar mundu fá þessa dýrtíðaruppbót greidda. Og fjvn. hafði líka gert sér grein fyrir því, hvað þetta mundi verða á hvern lækni. Svo þegar formanni læknafélagsins leiddist að bíða eftir þessu og hann hringdi til stjórnarráðsins til þess að vita, hvað þessu liði, fékk hann það svar, að ríkisstj. hefði ekki viljað taka neina ákvörðun í þessu máli, vegna þess að samþykktin, sem komið hefði frá fjvn., hefði verið svo loðin, að ríkisstj. hefði ekki treyst sér til að fara eftir henni.

Ég vildi nú gjarnan fá að vita hjá hæstv. forsrh., hvernig í þessu liggur, því að mér skilst á öllum aðilum, sem um málið fjalla, þ. á. m. fjvn. á síðasta ári, — og líka við umr. um málið hér í hv. d. — að þeim finnist ekki nema sjálfsagður hlutur að bæta læknunum upp, sem eru í erfiðum héruðum, þegar þeir mega ekki hækka eftir dýrtíðarvísitölu gjaldskrá þá, sem þeir eiga að fara eftir.

Þetta, sem hér hefur verið drepið á, launaspursmálið, og margt annað, sem áður hefur verið á minnzt við umr. um málið, eru aðalástæðurnar fyrir því, að erfitt er að fá unga lækna í erfiðustu héruðin. En ég er sannfærður um, að ef læknum væri sýnd meiri sanngirni heldur en gert hefur verið í þessum málum, kæmi aldrei til þess, að héruðin yrðu læknislaus.

Ég ætla ekki að öðru leyti að fjölyrða um þetta mál, en mig langar til við þessa umr. að fá vitneskju um þetta mál.