30.03.1942
Efri deild: 24. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

55. mál, lækningaleyfi

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég þarf ekki að endurtaka sögu þessa máls, en mun svara þeirri fyrirspurn, sem beint var til mín. Ég veit ekki, hvort fyrrv. heilbrigðismálaráðh. hefur sent þessa umtöluðu beiðni til fjvn. og fallizt á till. landlæknis um að greiða læknum uppbót, þannig að þeir fái allt að 650.00 kr. á mánuði, sem má ekki minna vera. En ég býst við, að ef hún hefur verið send þangað, þá hafi henni verið svarað. Fjvn. hefur óskað eftir því að taka ekki afstöðu til málsins, en hins vegar leggur hún áherzlu á, að launal. verði samin, og það hefur verið svar hennar viðvíkjandi flestum breyt. á launum. Hins vegar hefur ekki náðst samkomulag innan ríkisstj. um að láta endursemja launal. Þannig hafa svörin verið frá fjvn., og stjórnin hefur beinlínis ekki getað farið eftir þeim. Nú lágu fyrir beiðnir frá fleiri stéttum um kauphækkun, og það var ákveðið á fundi, að þetta yrði allt látið bíða, þar til hægt yrði að ræða við fjvn. um málið. Síðan ég tók við málinu, hafa læknar minnzt á þetta við mig. Um þetta leyti veiktust hæstv. atvmrh. og viðskmrh., og þess vegna var ekki hægt að bera málið upp á fundi, þegar fundur var haldinn fyrir tveim dögum og þá lágu sex önnur mál einnig fyrir hendi. Ég geri ekki ráð fyrir því, að margir dagar líði, þar til hægt er að afgreiða þetta mál, annaðhvort með því að hækka taxtann, sem sumir hafa talið fært, eða fara inn á þá braut að greiða uppbót á laun, sem næmu 650.00 kr. á mánuði. En hitt er vafasamt, hvort launauppbót mundi bæta úr þeim vandræðum, sem nú eru með lækna. Kann að vera, að það hafi einhver áhrif, og ekki nema sjálfsagt að taka málið til athugunar. Í sumum afskekktum sveitum landsins er alveg læknislaust, og ég held, að launakjörum læknanna á þessum stöðum sé hér ekki um að kenna, heldur hinni almennu pest, sem gengur í landinu, að fólk vill ekki dvelja á afskekktum stöðum. En ég viðurkenni, að óréttlátt sé, að þeir, sem kynnu að vilja setjast að í fámenninu, þyrftu að flýja þaðan vegna þess, hve embætti þeirra eru illa launuð. Mun ég taka mál þetta til athugunar á ráðherrafundi nú á næstunni.