30.03.1942
Efri deild: 24. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

55. mál, lækningaleyfi

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ef fara á að koma með breyt. á launal. inn í þingið, jafnvel þó að um sé að ræða leiðréttingu á launum lækna, sem ég álít, að hafi orðið fyrir misrétti, þá álít ég, að slík breyt. gæti dregið þungan dilk á eftir sér á svona tímum. Ég ætla að benda á það, að ég veit um eina greiðslu úr ríkissjóði, sem greidd var eftir minni ósk, eftir að hún hafði verið borin upp fyrir fjvn., og sú greiðsla var innt af hendi, meðan þing sat. Það höfðu verið veittir peningar á þingi 1941 til þess að byggja upp á Keldum, sem ríkið hafði keypt. En til verksins þurfti meiri peninga heldur en áætlað hafði verið. Nú stendur þannig á, og ég nefni þetta hér til gamans, að einmitt hv. 1. þm. N: M., Páll Zóphóníasson, kemur til mín og bendir á, að nú þurfi nauðsynlega að byggja hesthús á Keldum. En þar er hin svo kallaða „serum“-framleiðsla. Þar sem hér var um að ræða mjög aðkallandi og þarflega framkvæmd, var ekki hægt að bíða eftir samþ. þingsins, svo að ég leyfði mér, að fengnum till. fjvn., að láta vinna þetta verk.

Á svona tímum getur komið til mála að greiða ýmis útgjöld, sem ómögulegt er að segja fyrir um. Auðvitað er æskilegast að geta leitað álits þingsins um slík mál, en ríkisstjórnin verður á þessum óvenjulegu tímum að g,eta haft leyfi til að greiða nauðsynleg útgjöld, þegar svo ber undir.