07.04.1942
Efri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

55. mál, lækningaleyfi

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þetta mál, sem um er rætt að ráða bót á með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er orðið ákaflega mikið vandamál. Og ég hef ekki trú á því, að það sé hægt að ráða bót á þessu nema með því að samþ. bæði frv., þetta, sem er til umr., og hitt á þskj. 80, ef það er þá hægt með því.

Ég held, að þegar rætt er um laun, eins og nú var gert í sambandi við þessa aðstoðarlækna, þá geri maður rétt í því að miða ekki við þann tíma, sem nú er, og þá óhemju eftirspurn eftir vinnuafli. Þetta eru laun, sem við erum að ákveða fyrir eðlilega tíma. Og það er heldur ekki nein þvingun í sambandi við ákvæðin, sem í frv. felast um aðstoðarlækna, heldur er þar um að ræða embætti eins og venjuleg embætti, sem eru auglýst og menn geta sótt um, ef menn óska þess að fá þau. En það er vitanlega gert ráð fyrir, og á þeirri hugsun byggist frv. á þskj. 80, — að þessar 300 kr. á mánuði frá ríkinu séu ekki laun, heldur peningagreiðsla, sem ríkið innir af hendi til þess að létta undir með þeim læknum, sem vilja fá sér aðstoðarlækni, þó að aðallæknirinn dvelji sjálfur í héraðinu, ef honum þykir, t.d. fyrir aldurs sakir, of erfitt að gegna læknishéraðinu einn, eða ef hann þarf að víkja sér frá um stundarsakir. Það er ekki ætlazt til, að þessar 300 kr. séu öll þau laun, sem aðstoðarlæknirinn fær, heldur er gert ráð fyrir því, að landlæknirinn semji um það og læknarnir, sem aðstoðarlæknana hafa, greiði eitthvað líka frá sér til aðstoðarlæknanna. Og það má búast við, að þetta verði fyrst og fremst í þeim héruðum, þar sem mikið er að gera og því aukatekjurnar verulegar. Og ef brtt., sem bornar eru hér fram, hefðu verið þannig, að hægt hefði verið að greiða atkv. sérstaklega um kaflann, þar sem lagt er til, að ágóðinn af lyfjasölunni skiptist milli lyfjaeiganda og viðkomandi læknis, þá hefði ég greitt því atkv. En ef brtt. verða samþ. yfirleitt, skil ég ekki annað en það verði að skilja það svo, að þessar 400 kr. verði að greiða úr ríkissjóði. Og verði brtt. samþ. við frv. um kauphækkunina, geri ég ráð fyrir, að nokkur vafi geti verið á því, að frv. komist gegnum, þingið. Og ég sé ekki betur heldur en landlæknir geti einmitt, og hann muni þurfa á því að halda, með þeim samningum, sem hann tæki þarna upp, náð því sama eins og gert er ráð fyrir í brtt., að þessi laun verði 400–500 kr. á mánuði, og jafnframt, að aðstoðarlæknarnir fái hagnað af lyfjasölu, sem mér finnst eðlilegt og blátt áfram hyggilegt fyrir þann lækni, sem lætur af starfi, vegna þess að læknirinn, sem tekur við, hefur þá jafnframt hagsmuna að gæta í sambandi við þann lyfjaforða, sem er til, þegar hann tekur við.

Þó að þetta frv. verði samþ., geri ég ráð fyrir, að með því verði ekki hægt að ráða bót á öðru en því, að læknar geti, eins og aðrir menn, ef þeir þurfa, vikið sér frá starfi sínu um hríð, annaðhvort vegna veikinda eða til að taka sér nokkra hvíld. En þó að frv, verði samþ., geri ég ekki ráð fyrir, að það ráði bót á þeim læknaskorti, sem hefur verið nú um skeið til að þjóna í sumum héruðum landsins. Þó að ráðh. fái þessa heimild til að setja skilyrði fyrir ótakmörkuðu lækningaleyfi, að umsækjendur hafi gegnt aðstoðarlæknisstörfum hjá héraðslækni um allt að 6 mánaða tíma, þá er ekki hægt að segja, að það sé fullkomin lausn á þessu máli. Það er ekki fullkomin lausn á því vandamáli, sem læknisleysi er, þó að hérað, t.d. á Austurlandi eða vestur á Vestfjörðum, fái ungan mann í sex mánuði sem lækni til sín, sem er þvingaður til að gegna þar störfum. Því getur maður ekki neitað. En ég álít, að það sé samt sem áður rétt að samþ. þetta, því að þetta er þó betra heldur en alls ekki neitt til úrlausnar í málinu. Og ég sé ekki betur en að þessi kvöð, sem með þessu væri lögð á læknana, sé þolanleg. Og hún verður að vera það. En þegar ríkið heldur uppi menntaskóla og háskóla og veitir ríflega styrki til læknamenntunar sem annarra mennta í landinu, þá er það sjálfsögð og réttmæt krafa af ríkisins hálfu til læknastéttarinnar, að stórir hlutar af landinu séu ekki læknislausir. Og þeir, sem á þessum svæðum búa, vita bezt, hve óbærileg sú aðstaða er. Ég veit til þess, að í þeim héruðum, þar sem læknar hafa ekki verið undanfarið, hafa komið fyrir dauðaslys fyrir þá sök eina, að læknar hafa ekki verið við höndina til þess að afstýra því. Það er þess vegna, að mínu áliti, ómögulegt fyrir þjóðina annað en að leggja þessa kvöð á læknanemana, til þess að því sjónarmiði, sem þjóðfélagið hefur með þessari sem annarri menntun, verði fullnægt. Því að ef það er ekki gert, þá nær þessi stórkostlegi kostnaður, sem lagður er í að mennta menn til læknisstarfa eða annars, ekki tilgangi sínum, og er slíkt óviðunandi fyrir þjóðfélagið til lengdar.

Nú er það samt sem áður skoðun mín, að þetta sé ekki góð lausn á málinu, og að sérstaklega sé hún ófullnægjandi fyrir héruð, sem búast má við, að verði aðallega að njóta þessara ungu, óreyndu lækna. Og það er einmitt í afskekktustu héruðunum, þar sem erfiðast er að ná í aðstoð handa ungum lækni, ef hann ekki dugar. Og oft eru ungir læknar, sem nýlega hafa lokið námi og nýlega komnir úr skóla, ekki eins fallnir til erfiðra ferðalaga eins og þeir, sem eru vanir þeim. Það þarf oft vel harðnaða menn til ferðalaga í þessum afskekktu héruðum í misjöfnu veðurfari að vetrinum og þar, sem ekki er hægt að ná í annan lækni, ef út af ber.

Ég viðurkenni sjónarmið þess hv. þm. (BSn), sem sérstaklega ber hér hag læknastéttarinnar fyrir brjósti, að kjör þeirra manna, sem taka að sér læknisstörf í afskekktum héruðum, þar sem lág eru laun og litlar aukatekjur, eru náttúrlega þau, að ég er alveg fús til þess að taka, upp næstu daga og vikur, ef ég hef tækifæri til þess, viðræður við læknafélagið og landlækni um það, hvernig er hægt að gera kjör þeirra lækna, sem færu í afskekktu héruðin — ef það sýnir sig, að það atriði standi í vegi fyrir því, að læknar fáist í læknislausu héruðin — þannig, að þau verði nokkurn veginn sambærileg við kjör þeirra lækna, sem hafa þau betri. Ég hef ekki enn rannsakað það mál. Og ef sanngjörn lausn á því atriði málsins leysir þann vanda, sem við erum að reyna að bæta úr með þessari skyldukvöð, sem gert er ráð fyrir, að á læknastéttina verði lögð, þá geri ég ráð fyrir, að heimildin, sem ráðh. yrði veit:t með þessari lagasetningu, ef frv. verður samþ., komi miklu síður og ef til vill þá ekki til framkvæmda. En hæstv. Alþ. getur tæpast gengið frá þessu máli öðruvísi en hér er gert ráð fyrir, vegna þeirra héraða, sem engan lækni hafa og hafa ekki haft nú um nokkur ár, sum þeirra. Því að læknafélagið verður þá, og læknastéttin yfirleitt, að koma með framrétta hönd til heilbrigðisstjórnarinnar til að leysa þann stórkostlega vanda í þessu efni, sem þjóðfélagið getur ekki búið við til lengdar. Það er ekki hætta á því, að ég taki ekki til greina launasjónarmiðið, sem hv. þm. Hafnf. (BSn) hefur haldið hér fram. En takist með samningum um það samt sem áður ekki að fá lækna út í útkjálkahéruðin, þá verður ekki hjá því komizt að grípa til þessara þvingunarráðstafana, þó að alltaf sé illt að beita þess háttar ráðstöfunum.