07.04.1942
Efri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

55. mál, lækningaleyfi

*Bjarni Snæbjörnsson:

Herra forseti ! Ég vil fyrst af öllu þakka hæstv. forsrh. fyrir þau ummæli, sem hann hafði hér, að hann væri fús til að semja við læknafélagið og landlækni til þess að samræma launakjör læknanna. Mér þykir vænt um að heyra, að hann er fús til að ræða þetta og fús til framkvæmda í málinu. Hingað til hefur það verið svo, að stj. hefur legið á þessu máli, en eftir þessa yfirlýsingu hef ég fulla von um, að það rætist úr þessu máli. En ég vil taka það fram í því sambandi, að hæstv. ráðh. minntist á, að læknafélagið verði að finna einhverja leið til þess að leysa þetta spursmál; að hægt sé að fá lækna út í fámennu héruðin og afskekktu, þá er það svo, að Læknafélag Íslands og formaður hess. hafa hvað eftir annað gert till. sínar við ríkisstj. og landlækni um, það, sem mætti verða til umbóta í þessu máli. En þessum till. hefur aldrei verið sinnt og aldrei verið gert neitt til þess að ráða bót á þessu máli. T.d. árið 1941 var landlækni skrifað, 4. marz, þar sem læknafélagið bar fram ýmsar till. til úrbóta í þessu efni. Þykir mér rétt að rifja upp ýmis atriði, sem þar voru lögð til málanna. Í þessu bréfi stendur m.a.:

„Vér teljum því óhjákvæmilegt að bæta kjör lækna í lökustu héruðunum á einhvern hátt, til þess að nokkur von sé til, að þau fáist setin til lengdar af vel menntuðum, dugandi læknum. Dettur oss þá helzt í hug þessi atriði:

1. Hækka launin svo, að þeim verði öðrum fremur unnt að afla sér síðar framhalds- og viðhaldsmenntunar, þar sem gera má ráð fyrir, að lækniskunnátta þeirra líði smám saman meira tjón í hinum minni héruðum en þeim stærri, að sama skapi og þeim gefst af eðlilegum ástæðum minni kostur á að halda henni við með læknisreynslu.

2. Þeim verði séð fyrir ódýru. húsnæði.

3. Lökustu héruðunun verði lögð til öll nauðsynleg verkfæri, sem jafnan fylgi héraðinu, en læknum sé skylt að viðhalda.

4. Lyfjabúr séu af ríkinu á sama hátt lögð hverju héraði, sem læknar síðan haldi við og skili við burtför sína í hendur eftirmanna sinna eða umboðsmanna heilbrigðisstjórnarinnar, í sama ástandi og þeir tóku við.

Þessi tvö síðustu atriði mundu mjög hjálpa til þess, að læknar fengjust í lökustu héruðin, þar sem þeir að öðrum kosti jafnan verða að leggja í mikinn stofnkostnað og hleypa sér í stórskuldir, er þeir fyrst taka að sér héruð. Er engin furða þótt þeim hrjósi hugur við því, þar sem allflestir munu koma skuldum hlaðnir frá hinum langa námstíma sínum:

Þetta eru till., sem mér sýnist, að væri vel hægt að framkvæma. En þær hafa, sem sagt; legið í salti hjá landlækni eða ríkisstj, meira en ár, og á þeim tíma hefur ekkert verið gert til þess að bæta úr þessu. Þegar þess vegna stjórn Læknafélags Íslands hvað eftir annað hefur komið fram með till, til landlæknis og ríkisstj. í þessu efni og ekkert hefur samt verið gert í málinu, þá er ekki nema eðlilegt, að stjórn læknafélagsins taki það svo, að það sé sama, hve oft hún beri fram till. sínar, landlæknir taki þær samt ekki til greina, og þá sé ekki vilji fyrir því hjá viðkomandi yfirvöldum að gera neitt fyrir læknana annað en að kúga þá til að gera það, sem þarf að gera. Því að það kemur berlega fram, hvað vakað hefur fyrir hv. allshn., þegar hún bar fram þetta seinna frv. um málið. Það er einmitt það, sem kom svo skýrt fram bæði hjá hv. frsm. allshn. (IngP) og líka hv. 11. landsk. (MG), að þeir voru sannfærðir um það, að ef þessi lítilfjörlegu laun væru höfð eins og til er tekið í frv. á þskj. 80, þá þyrfti að þvinga lækna til þess að fara í héruðin. Þá er spurningin þessi: Er ekki skynsamlegra og skemmtilegra að hafa launin hærri og þurfa ekki að þvinga læknana til þessa?

Nú er þetta misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ef það væri sett í frv. á þskj. 80 og það samþ., að launin skyldu vera 500 í stað 300 kr. á mánuði til þessara aðstoðarlækna, þá yrði að greiða það allt úr ríkissjóði. Það er alls ekki þar með sagt. Það er til tekið í frv., að ríkissjóður greiði allt að 300 kr. á mánuði. En það getúr verið; að héraðslæknirinn vilji greiða eitthvað af þessum launum til þess að fá lækninn. Ef þetta á að vera 300 kr. fast gjald og svo á að semja við héraðslæknana um greiðslur til viðbótar, verður kapphlaup um það að fá þessa aðstöðu. Mér virðist, að það væri miklu heppilegra að hafa föstu launin 500 kr., eins og gert er ráð fyrir í brtt. mínum. Annars finn ég ekki ástæðu til að svara neinu af því, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh. Hann talaði um málið af miklum skilningi, og mér skildist á honum eins og hv. 11. landsk., að þeir væru fúsir til þess að greiða atkv. með því að lofa þessum brtt. mínum að koma fram, ef hæstv. forseti vildi gefa samþykki sitt þar til.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast nokkrum orðum á ræðu hv. frsm., enda þótt hv. 1. þm. Reykv. hafi nokkuð rætt málið. Hv. frsm. reiknaði út, hvað læknarnir í útkjálkahéruðunum hefðu í laun, og bar það saman við laun sjúkrasamlagslæknanna hér í Rvík, sem hann sagði, að hefðu 14 þús. kr. á ári, en hinir 10 þús. kr. Honum finnst ekki nema fullkomlega vel borgað að fá 14 þús. kr. laun hér í Rvík á móti 10 þús. kr. í útkjálkahéraði úti á landi og gerir ráð fyrir því, að læknir hér í Reykjavík sé sízt betur settur með sínar 14 þús. kr. En það er fleira, sem kemur til greina í þessu efni en aðeins launin sjálf. Það er svo ólíku saman að jafna. sem mest getur verið að vera læknir hér í Rvík eða í afskekktu héraði úti á landi. Hér í Rvík njóta læknar ýmissa fríðinda og þæginda, sem alls ekki koma til greina úti á landi. Þeir fá t.d. mánaðar sumarfrí, auk þess sem þeir hafa vissa frídaga. Þetta kemur auðvitað ekki til greina í afskekktu læknishéraði, þar verður læknirinn að vera til taks, hvenær sólarhringsins sem er, allan ársins hring. Hann hefur ekki einn einasta dag sem vissan frídag. Hann verður að leggja á sig erfið ferðalög í hvaða veðri, sem er, og hvenær sem er. Fyrir þetta eiga þeir svo að hafa 10 þús. kr., og það telur hv. frsm. ágæt laun.

Nei, það, sem þarf að gera í þessu máli, er það að launa þessi embætti reglulega vel, svo að læknar fáist í þau og geti orðið fjárhagslega sjálfstæðir, þegar þeir hafa unnið þar nokkurt skeið. Ég er þeirrar skoðunar, að ef brtt. mínar mættu koma til atkv., þá mundu þær verða til þess að læknakandidatar mundu verða miklu fúsari til þess að fara í þessa staði og það alveg án þvingunar.