07.04.1942
Efri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

55. mál, lækningaleyfi

*Erlendur Þorsteinsson:

Ég skal ekki tefja umr. mikið og jafnframt halda mig við þetta frv. Það er fullkomlega rétt, að það er nokkur þvingun lögð á læknanemana, ef beitt verður þeirri heimild, sem hér er gert ráð fyrir. Hins vegar hefur það komið í ljós, að nauðsyn er mikil á því að bæta úr því læknaleysi, sem sums staðar á sér stað, og má í því sambandi gera ráð fyrir, að grípa verði til ráðstafana, sem undir venjulegum kringumstæðum mætti kalla neyðarráðstafanir. Ef það er rétt, sem hv. þm. Hafnf. heldur fram, að ekki þurfi að beita þessum ákvæðum, mun þeim að sjálfsögðu ekki verða beitt. En það mun fljótlega sýna sig, hvort ástæða verður til þess að beita þessari heimild. Ég mun greiða atkv. með því að veita þessa heimild í trausti þess, að henni verði ekki beitt nema brýna nauðsyn beri til.