09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

55. mál, lækningaleyfi

Helgi Jónasson:

Herra forseti ! Um þetta frv. ætti ekki að þurfa langar umr. að sinni, því að það er flutt af allshn. Ed., eftir till. landlæknis, en einstök atriði gefst nóg tækifæri að ræða um síðar. En ég vildi, með leyfi hæstv. forseta ræða um leið næsta mál á dagskrá, 50. mál. um skipun aðstoðarlækna.

Efni frv. er það, að skipa skuli allt að 4 aðstoðarlækna í fjölmenn læknishéruð, þar sem ekki starfa aðrir læknar en héraðslæknar, og greiði ríkið þeim allt að 300 kr. á mánuði með dýrtíðaruppbót. Það skal vera kvöð á þeim, að grípa megi til þeirra í allt að 4 mánuði á ári til að gegna læknishéruðum, þar sem vantar héraðslækni, eða fjarvistum þeirra og forföllum.

Undanfarin ár hefur víða horft til stórvandræða af læknisleysi í ýmsum strjálbýlli héruðum landsins. Þannig mun lækni vanta í Reykhólahérað, Hróarstunguhérað, Dalahérað, og víðar hefur verið læknislaust langtímum saman. Þetta hefur viljað brenna við, bæði fyrr og síðar, og þótt þungt við að búa, en aldrei eins og þessi árin, og því lengur sem dregst að bæta úr, því verra hefst af og því verr þola menn þetta. Það þolir ekki lengur bið.

Læknum er oft legið á hálsi fyrir það, að þeir vilji allir vera í þéttbýlinu og kaupstöðunum. Þetta getur verið að nokkru leyti rétt. En ég held, að engum blandist hugur um, að það er ekki að ástæðulausu, sem læknar forðast strjálbýlið. Ef maður athugar launakjör lækna á þeim stöðum, leika þau á 185–300 kr. á mánuði eftir því, hve héruðin eru mannmörg. Læknar, sem eiga mjög langt nám að baki, — fyrst stúdentsnám, þá 8 ár í háskóla, síðan eitt ár við verklegt nám í þjónustu hins opinbera við lítið kaup, og þurfa að því búnu að afla sér læknisáhalda, sem nægi í afskekktu héraði, koma sér upp lyfjabúð og leggja enn fleira í kostnað, — þeir læknar eiga síðan að láta sér nægja kaup, sem sendisveinar og álíka kauplágt fólk fær hér í Reykjavík.

Ég held, að ekki sé hægt að álasa læknum, þótt þeir séu ekki fúsir að ganga að þeim kjörum.

Aukatekjur lækna eru vitanlega þó nokkrar í sumum héruðum. En þegar mannfjöldi er innan við þúsund manns, læknissókn dýr og erfið og efnahagur tæpur hjá þorra manna, eru ekki allir læknar svo harðbrjósta, að þeir fái sig til að taka borgun af fólki, svo að miklu muni um þær tekjurnar.

Það gladdi mig mjög, þegar hæstv. forsrh. lýsti yfir því í Ed. við umr. um þetta mál fyrir skemmstu, að hann teldi brýna þörf á að bæta launakjör lækna í sveitahéruðum og vildi að því vinna. Ég vona, að eitthvað verði að því gert, áður en langt um líður. Það vill svo til, að allar stéttir landsins hafa nú fengið uppbót á kjör sín, nema læknar eru greinilega eftir skildir og afskiptir. Í fyrra skrifaði landlæknir stjórninni bréf, þar sem farið var fram á, að læknar fengju fulla dýrtíðaruppbót af hámarkslaunum, sem uppbót veitist af. Þessu var vel tekið af ríkisstj., og fjvn. var því meðmælt. En þar við situr. Góð eru góð orð, en þau góðu orð eru það eina, sem læknar hafa haft upp úr því.

Ég held, að ef litið er á störf héraðslækna, sé ekki sanngjarnt, að þeir beri ekki meira úr býtum en sendisveinar í Reykjavík. Starfið er oft mjög erfitt og áhættusamt og verður að sinna því jafnt á nótt sem degi. Þessi meinsemd, sem fólk er farið að finna til, að ekki fást læknar, stafar af því, að ekki bjóðast sæmileg kjör. Eins og nú háttar, er ekki von, að nokkur maður líti við boði, sem jafnvel sendisveinar sæju sér fjárhagslegan óhag í að taka.

Þetta frv. bætir að vísu ekki úr þörf hinna læknislausu héraða nema þá að litlu leyti og í viðlögum. En skipun þessara aðstoðarlækna léttir undir með héraðslæknum víða í erfiðum héruðum og fólksmörgum. Þeir læknar eru algerlega bundnir sem fangar, eins og nú er, þegar ómögulegt er að fá aðstoðarmann eða menn í forföllum sínum nema þá fyrir geipiverð. Frv. ætti að bæta töluvert úr þeirri meinsemd. Fyrra frv., það sem fyrir liggur, 55. mál Ed., sem rætt hefur verið nokkuð með þessu, er ég tók fram um aðstoðarlæknana, snertir hins vegar læknislausu héruðin meir, og vildi ég þá víkja að því nánar.

Það fer fram á, að heimilað sé að skylda læknæfni til að gegna læknisstörfum 6 mánuði í læknislausum héruðum eða sem aðstoðarlækna að loknu námi. Þetta er talsverð aukakvöð, og læknar hafa mótmælt henni kröftuglega. Ég fellst á, að til þessa kunni að þurfa að taka. En ég vil, að sú heimild sé ekki notuð, nema kjarabætur, sem nauðsynlegar eru, dugi ekki til þess, að læknar fáist í héruðin.

Ég geri ráð fyrir, að þau launakjör, sem aðstoðarlæknunum 4 eru ætluð, allt að 300 kr. á mánuði með uppbót, dugi alls ekki, — og ekki væru þau kjör öðrum en læknum boðin. Hins vegar ætti að nægja, að ríkissjóður leggi þetta fram og ekki meira en viðkomandi héraðslæknar leggi til það, sem á vantar. Ég vorkenni þeim ekki að borga svo sem 240 kr. á mánuði til þess að hafa aðstoðarlækni eða mann fyrir sig, móts við það að þurfa nú að borga 6 eða 7 hundruð fyrir það.

Ég vil mælast til, að frv. verði vísað til nefndar og afgreiðslu þess flýtt.