13.04.1942
Efri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

48. mál, lax og silungsveiði

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Við 1. umr., þessa máls var gerð nokkur grein fyrir frv., svo að ég þarf ekki að segja margt um það nú.

Hér er ekki um að ræða mikilvægar breyt. á lax- og silungsveiðil. Þó að þessum l. hafi árlega verið breytt, þá virðist þeim breyt. ekki vera lokið enn. Það er alltaf eitthvað, sem kemur fram, sem þarf lagfæringar. Annars er það álit landbn. um þetta mál, þótt það sé ekki stórvægilegt, að rétt væri að tryggja sem bezt, að ekki væri gengið á rétt einstaklinga, sem sjóveiði hafa, nema það væri nauðsynlegt. Og þar sem fiskiræktarráðunautur hefur fastlega mælt með frv. og það hefur einnig verið sent veiðimálan. og hún lýst því ákveðið yfir, að hún vilji, að frv. nái fram að ganga, taldi n. rétt með þeim tryggingum, sem — eru í frv., að mæla með, að það yrði samþ. Þó er þess að geta, að víða geta veiðistöðvar verið undan landi, sem bæjarfélög eiga, og þá þótti ekki rétt, að þeim væri gert lægra undir höfði en sýslufélögum. Taldi n. því rétt og sjálfsagt, að ef ætti að setja bann, þar sem bæjarland er, að þar kæmi til álit og umsögn bæjarstjórnar. Þess vegna er með ráðnum hug lagt til, að í frv. skuli standa „út frá bæjarlandi“, þ.e. framlenging bæjarlands út í sjó. Með þessari breyt. leggur n. til, að frv. verði samþ.