15.04.1942
Efri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

48. mál, lax og silungsveiði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Mér finnst ég mega til að gera grein fyrir atkv. mínu um þetta mál. Ég var í n., sem fór með frv., og ég var með því, að það næði fram að ganga. Ég lít svo á, að það geti verið nauðsynlegt að friða þennan göngusilung, sem talað er um í frv., í sjó á ákveðnum svæðum. Og þegar ég er með því; að þessi heimild verði sett í l., þá byggist það eingöngu á því, að það er ætlazt til, að fyrst og fremst sé það ekki gert nema þar, sem fyrir eru fiskiræktar- og veiðifélög, og þá geri þau fyrst till. um það, á hve stóru svæði friðunin sé gerð, og að þar næst er ákveðið, að sýslunefnd skuli hafa mælt með slíkri friðun, til þess að hún megi vera gerð, og að till. þeirra aðila beggja gangi svo gegnum veiðimálastjóra, og þá fyrst á, eftir frv., ráðh. að vera heimilt að takmarka eða banna þessa veiði.

Mér er ljóst, að heimild þessi er notuð víðtækt; og ef miður gætin sýslun., sem hlut á að máli, mælir með slíkum takmörkunum, þá mundu ýmsar jarðir, sem góðar tekjur hafa nú af silungsveiði í sjó, geta misst afnot af þeirri veiði. Það eru til staðar ákaflega skiptar skoðanir um það, hve langt eigi að ganga í þessu efni. Sumir vilja halda því fram, að allur silungur, sem veiðist í sjó í Skagafirði, t, d. út með Höfðaströnd og jafnvel út fyrir Hofsós og einnig langt út með Skaga að vestan, sé á leið upp í Héraðsvötn, og eigi að banna veiði hans í sjó á þessum svæðum af því. Ég vona, að sýslun. Skagafjarðarsýslu leggi ekki þann skilning í þetta, og ef hún gerir það, að sá skilningur verði ekki viðurkenndur af ráðh. Og í trausti þess, að þannig verði ekki að farið, er ég með frv.