15.04.1942
Neðri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

84. mál, jarðræktarlög

*Gísli Sveinsson:

Ég ætlaði mér ekki að taka til máls um þetta frv. á þessu stigi málsins. Ég sé ekki ástæðu til að fara nú út í einstök atriði frv., sem er að mörgu leyti gott eitt um að segja, en ég vil aðeins gera þá fyrirspurn til landbn., hvort hún hafi ekki hugsað sér að koma með brtt. við 17. gr. jarðræktarlaganna, sem hefur, eins og kunnugt er, verið landsmönnum mikill ásteytingarsteinn. Ég tel því mjög æskilegt og hefði talið, þótt fyrr hefði verið, að menn gætu sætzt á að afnema 17. gr., hvað sem gert yrði í staðinn, sem hefur verið ágreiningur um, hvort nokkuð ætti að vera.

Þessa fyrirspurn vildi ég ekki láta hjá líða að bera fram, af því að ekkert sést um það atriði, og ég vænti þess, að ég fái fullnægjandi svar við henni.