30.04.1942
Neðri deild: 45. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

84. mál, jarðræktarlög

*Frsm. (Steingrímar Steinþórsson):

Háttv. 4. landsk. talaði um að breyta 1. gr. jarðræktarlaganna, fella burtu hámarkið á styrk til grjótnáms.

Ég veit vel, að þetta mun einkum hafa verið nefnt vegna Vestmanneyja, því að þær hafa hér um sérstöðu vegna lítils landrýmis, svo að þar verður að brjóta land og ryðja, er ekki þætti borga sig annars staðar. Ég lofa því, að landbn. skal athuga þetta milli umræðna.

Þetta hefur verið rætt á búnaðarþingi, og ég hef haft löngun til að taka tillit til Vestmannaeyja. En þó tel ég ekki rétt að afnema hámarkið, því að það var einmitt sett til þess að koma í veg fyrir svindl í sambandi við grjótnámi. Grjótið var e.t.v. selt. En mér er ljóst að greiða þarf fyrir þessari sérstöðu. Persónulega vil ég athuga, hvað hægt er að gera fyrir 3. umr.

Háttv. þm. Seyðf. talaði um, að styrkur hækkaði nú til jarðræktar. En það er ekki meira en það, sem nemur verðlagsuppbót, miðað við fyrir stríð. Einkum er það styrkur til framræslu og votheysgryfja, sem hækkar. En þá er líka tilganginum náð, því að það, sem mest veltur á í þessu efni, er, að menn fái aðstöðu til að geta ræst jörðina fram. Og þá tel ég vel farið, ef menn ykju afköst sín í þessu efni verulega frá því, sem nú er. Ég hef einmitt látið rannsaka þetta síðan jarðræktarlöggjöfin kom fram, hvað þetta nemur mikilli hækkun á grunnstyrkjum. En vísitöluhækkun á þeim fer svo eftir verðlagsvísitölu á hverjum tíma.

Ég ætla ekki að deila um brtt. viðkomandi 17. gr. jarðræktarl. En ég hygg, að það sé ofmælt hjá hv. þm. A.-Húnv., að það séu margir bændur, sem ekki hafa tekið við jarðræktarstyrknum. Hann getur a.m.k. fengið lista yfir þá bændur, sem skilað hafa. styrknum aftur. Og þeir, sem ekki hafa tekið við styrknum, hygg ég, að ekki séu býsna margir, en þeir eru nokkrir, sem hafa skilað honum aftur.

Þá sagði hv. þm. A.- Húnv., að úr því að búnaðarþing hefði verið sjálfu sér sundurþykkt í þessu efni, þá þyrfti ekki að taka gerðir þess svo hátíðlega til greina. En það er nú svo, að við verðum, í hvaða félagsskap, sem við störfum, að beygja okkur fyrir meiri hlutanum og svo er einnig hér á hæstv. Alþ. Og búnaðarþing er ekki annað en ráðgefandi þing, svo að hæstv. Alþ. getur gert hvað, sem því sýnist um þau mál, sem búnaðarþing fjallar um, hvað sem samþ. er um þau á búnaðarþingi. En það hefur þó verið meiri hluti búnaðarþings, sem staðið hefur að því, að þessi 17, gr. hefur verið leidd í l.

Ég tel það ekki heldur rétt mælt af hv. þm. A.- Húnv., að á búnaðarþingi hafi hver höndin verið uppi á móti annarri, og þegar hann sagði það, mun hann hafa meint það, að því er við kemur ákvæði 17. gr. þessara l. En búnaðarþing lagði mjög mikla áherzlu á það, að jarðræktarl. yrðu afgreidd, hvað sem snerti 17. gr. þeirra. Því að á aukaþinginu, sem haldið var í vetur, var samþ. með samhljóða atkv. á búnaðarþingi svo hljóðandi till., sem ég les hér upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing beinir þeim eindregnu tilmælum til Alþingis, að það afgreiði frumvarp það til breytinga á jarðræktarlögunum, er lagt var fyrir síðasta Alþingi, og ákveði um leið, að styrkir, sem veittir verða út á jarðabætur ársins 1941, skuli greiðast eftir hinum endurskoðuðu lögum“

Ég skal geta þess, að að þessari samþ. stóð allt búnaðarþing. Og það var tekið fram af þeim mönnum, sem andvígir voru því, að 17. gr. jarðræktarl. væri í l., að þeir væru með þessu, af því að þeir óskuðu þess án tillits til 17. gr., að þessar greinar næðu fram að ganga. Og ég er þakklátur hv. þm: A: Húnv. fyrir það, að hann er með því, að þetta frv. nái fram að ganga hér á hæstv. Alþ., án tillits til þessarar gr. En verði 17. gr. felld burt úr jarðræktarl. með brtt. við frv., mun ég þó staðla að því, að frv. nái fram að ganga á Alþ., vegna annarra þeirra breyt., sem í frv. eru. En búnaðarþing stóð einhuga að öllum breyt., sem hér er um að ræða að gera á l., Þannig að frv., eins og það liggur fyrir, hefur einhuga samþykki búnaðarþings. Þetta ákvæði 17. gr. jarðræktarl, er því í raun og veru það, sem um er deilt hér. Þess vegna hygg ég, að það geti náðst samkomulag um frv, án tillits til 17. gr. jarðræktarl.