30.04.1942
Neðri deild: 45. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

84. mál, jarðræktarlög

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég get verið sammála hv. 1. þm. Rang. um það, að það gæti verið full ástæða til þess fyrir ríkið gagnvart fleiru en jarðræktarstyrknum að setja einhver ákvæði um það, að það fé, sem veitt er af því opinbera, verði ekki að eign einstaklinga, þannig að sú eign verði verzlunarvara, heldur verði styrkirnir raunverulega til þess að bæta afkomumöguleika fólksins í heild. En það er svo um fjölda marga styrki til framkvæmda, sem veittir eru af því opinbera, bæði þá, sem hv. þm. nefndi, og einnig marga aðra, eins og til hafnargerða og lendingarbóta og annarra mannvirkja, að þeir eiga að ganga til þjóðfélagsins í heild, samkv. tilganginum, en sem engin tilraun er gerð til að tryggja, að ekki geti að meira eða minna leyti orðið verzlunarvara einstakra manna, þannig að ég er með hv. 1. þm. Rang. í því, að sú hugsun sé réttmæt, sem felst í 17. gr. jarðræktarl., að reyna að koma í veg fyrir, að þessir styrkir verði til þess, að jarðirnar hækki óhæfilega í verði. Því að ég held, að það sé sammála skoðun allra, að það sé einhver hin mesta plága fyrir landbúnaðinn, ' hve jarðir komast stundum í hátt verð, og hversu örðugt er þess vegna að reka þær af þeim slíkum, sérstaklega á tímum, þegar þær ganga mikið kaupum og sölum. Og þetta vakti fyrir hæstv. Alþ. á sínum tíma, þegar 17. gr. jarðræktarl. var sett. Hitt er annað mál, hvort rétta formið hefur fundizt með þessari tilraun, sem löggjafinn vildi leggja mikla áherzlu á að gera. Ég er viss um það nú, að 17. gr. 1. nær ekki þeim tilgangi, sem ætlazt var til. Og um þetta atriði tók ég fram eftirfarandi í umr. um jarðræktarl. á Alþ. 1936:

„Ég skal játa, að það er ekki nema eðlilegt, að mönnum komi til hugar, að sú skipun þurfi að verða á, að jarðræktarstyrkurinn verði ekki eign einstakra manna, er síðan geti selt hann, og hann verði þannig til að hækka jarðarverðið, heldur ætti þessi styrkur að verða til þess að bæta afkomumöguleika allra þeirra bænda, er á jörðinni búa í framtíðinni, og yrði hann því sem gjafahluti ríkisins til ábúandans á jörðinni. En ég tel mjög mikið vafamál, að þetta takist fyllilega og að þetta ákvæði nái tilgangi sínum, en það er þó tilraun í rétta átt, og mun ég fylgja því, ef brtt. n. verður samþ.

Þannig leit ég á það í upphafi, þegar 17. gr. jarðræktarl. var lögákveðin. Og ég hef sannfærzt um það betur og betur, eftir að reynsla hefur komið um það mál, að þessi 17. gr. er allsendis ónóg til þess að ná þeim tilgangi, sem fyrir löggjafanum vakti, þegar þetta ákvæði var sett í l. Og ég er alltaf tilbúinn til þess að ræða við menn um önnur róttækari ákvæði til að ná þessu marki heldur en 17. gr. er. Og á síðasta búnaðarþingi var þetta mál mjög tekið til athugunar, og vantaði ekki nema herzlumuninn, að samþykkt væri gerð á þinginu um önnur ákvæði, sem þeir, sem á þinginu voru, og þar á meðal ég fyrir mitt leyti, álitu ná miklu betur tilgangi 17, gr. heldur en gr. sjálf. Þessi viðleitni strandaði, en ég tel, að þessi viðleitni hafi stefnt í rétta átt. Og þó að trú mín á það hafi minnkað, að 17. gr. þessara l. sé þess umkomin að ná því takmarki, sem henni hefur verið ætlað, tel ég þó ekki rétt að kasta því ákvæði burt úr l., meðan enn er á tilraunastigi, hvaða ákvæði hægt sé að taka upp í hennar stað, og mun ég því greiða atkv. á móti brtt., vegna þess að ég tel, að þessar tilraunir, sem gerðar voru þarna á búnaðarþingi um að finna hentugri leið í þessu efni, eigi að standa þangað til annað ákvæði getur komið í staðinn fyrir 17. gr., sem betur en hún nær þeim tilgangi, sem þeirri gr. var ætlað að ná. Þess vegna mun ég greiða atkv. á móti því, að 17. gr. verði felld niður, ekki af því að ég hafi tröllatrú á henni, heldur af því að ég álít, að þessi tilraun megi vera í l. og það gagn, sem hún gefur, þangað til áhrifameira ákvæði og betra kemur í hennar stað.