12.05.1942
Efri deild: 55. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

84. mál, jarðræktarlög

*Frsm. (Erlendur Þorsteinsson):

Herra forseti ! Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er allmikill bálkur, sem innifelur í sér miklar breytingar á jarðræktarl. frá 23. júní 1936. Frv. þetta er nú flutt af landbn. Nd., og flutti nefndin shlj. frv. á aðalþingi 1941, en það náði þá ekki afgreiðslu. En undirbúningur málsins er þannig, að á búnaðarþingi 1939 skipaði þingið þriggja manna milliþinganefnd, sem skyldi taka þessi mál til athugunar, en í henni sátu Hafsteinn bóndi Pétursson á Gunnsteinsstöðum, Jón bóndi Sigurðsson á Reynistað og Þorsteinn bóndi Sigurðsson á Vatnsleysu, en auk þess hefur landbn. Nd. unnið að frv. og gert breyt. á því. Breytingar þessar miða einkum að því að hækka styrki til landbúnaðarins.

Í 1. gr. er styrkur til jarðræktar og húsabóta hækkaður mikið. Styrkur til framræslu er hækkaður um 20%–25%. Einnig er hækkaður allverulega styrkur til þaksléttu í nýrækt, úr kr. 1.6U upp í kr. 2.00 á fermetra og einnig í túni úr kr. 1.40 upp í kr. 2.00 á fermetra.

Ástæðan til þess, að framlög til framræslu eru hækkuð svo mjög, er sú, að styrkurinn var svo lítill til móts við aðra jarðræktarstarfsemi, og hefur þess vegna oft verið vanrækt að þurrka landið nægilega.

Með 2. gr. eru gerðar breyt. frá gildandi 1. En þær eru fyrst og fremst, að verðlagsuppbót skal greiða á alla styrki eftir meðalvísitölu ársins áður. Jafnframt er ákveðið, að sá styrkur, sem greiddur er vegna verðlagsuppbótar, skuli ekki talinn með við útreikning hámarksupphæða, sem tilteknar eru, þannig að hámarkið skuli miðað við þá grunnupphæð, sem greidd er, en ekki verðlagsuppbótina.

Með 3. gr. eru gerðar nokkrar breyt. á 11. gr. laganna, og eru þær um þau ákvæði, sem styrkur til jarðræktar og húsabóta er takmarkaður. Býli, sem í eldri lögum var ákveðið að skyldu fá kr. 1000 mest, eiga nú að fá kr. 2000. Svo er það næst, að hámarkið, sem býlin fengu í styrk eftir gömlu l., sem var 1 til 4 þús. kr., er nú 7 til 10 þús. kr., en þar er svo ákveðið, að þeim skuli greitt 50% minna fyrir hvert verk, sem er framkvæmt. Býlum, sem fengið hafa samtals 2 til 7 þús. kr., skal greiða styrk samkvæmt ákvæðum 9. gr. En býli, sem fengið hafa fullar 10 þús. kr., fá engan styrk samkvæmt l. Og eins og ég hef áður sagt, þá er hér einungis um grunnstyrk að ræða, en verðlagsupphót ekki reiknuð með.

Í 5. gr., sem verður 13. gr. l., er bætt inn sérstökum lið, sem er c-liður, til byggingar votheyshlaða kr. 350.00. Það er talin mikil nauðsyn á, að votheyshlöður verði auknar frá því, sem nú er, og enda þótt nokkuð hafi verið bætt úr í þessu efni síðustu árin, er samt lagt til að hækka þennan styrk, til þess að hægt verði að fá viðunandi framleiðslu á þessari gerð heyja. Aftur á móti er d-liður, sem áður var c-liður, lækkaður úr kr. 800.00 ofan í kr. 600.00, svo að heildarhámarkið hækkar aðeins um kr. 150.00, en skiptingin verður öðruvísi en áður.

Á 14. gr. l. er gerð lítils háttar breyt., þar sem gert er ráð fyrir, að Búnaðarfélag Íslands leggi dóm á, hvort býli, sem þar greinir, fái styrki eða ekki.

Síðasta breyt. við þennan kafla, við 16. gr., er sú, að í staðinn fyrir 5 þús. kr. komi 10 þús. kr. Næsta breyt. á jarðræktarl. er við 3. kafla l., og eru það 8.–11. gr. frv., sem um þá breyt. fjalla. Með 8. gr. er breytt 18. gr. gildandi l., og eru þar sett ný og frekari ákvæði um það, hvern rétt menn eiga til að stofna félag. Það eru 4 liðir: a) að útvega land og framkvæma á því félagsræktun til stofnunar nýbýla eða samvinnubyggða, b) að útvega íbúum kaupstaða, kauptúna og sveitaþorpa land til ræktunar og framkvæma félagsræktun á því, enda sé tryggt, að dómi hreppsnefndar eða bæjarstjórnar, að hver félagsmaður geti fengið sinn hluta af ræktunarlandinu til eignar eða erfðaleigu, c) að koma á sameiginlegum ræktunarframkvæmdum á landi tveggja eða fleiri lögbýla, þar sem aðstaða til framræslu lands eða jarðvinnslu gerir félagsræktun æskilega, að dómi Búnaðarfélags Íslands. Svo er það loks d-liður:að menn eigi rétt á að stofna félag um jarðræktarfélög, sem ekki geta heyrt undir a-, b- eða c-lið þessarar gr., og að þau skuli því aðeins njóta þess réttar, er 19. gr. áskilur þessum félögum, að þau uppfylli þær skyldur, að þau hafi eignarumráð eða varanleg leiguliðanot á landi til ræktunar, að tilgangur ræktunarinnar sé að eins framleiðsla jarðargróða, að í samþykkt sé ákveðin aðstaða hvers einstaks félagsmanns til ræktunarinnar og að Búnaðarfélag Íslands mæli með því, að félögum sé veittur sá réttur. Í 19. gr. er svo ákveðið nánar, hvernig þessi félög, sem stofnuð eru samkvæmt 18. gr., skuli að öðru leyti fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru í 9. gr.

Með 10. gr. er gerð breyt. á 20. gr. l., þar sem bætt er inn í ákvæðum um það, hvernig stofna beri félög, og hvaða ákvæði þurfa að vera um þá félagsstofnun, til þess að félagið geti orðið styrks aðnjótandi. Og eru um það skýr ákvæði í a—i lið 10. gr. Samþykktir þessara félaga skulu vera staðfestar af atvinnumálaráðuneytinu, að fenginni umsögn Búnaðarfélags Íslands. Það er jafnframt ætlazt til í þessari gr., að ræktunarfélög, sem stofnuð eru samkvæmt ákvæðum þessa kafla, skuli skrásett.

Þá kemur inn í 21. gr. nýtt ákvæði, þar sem bæjarstjórnum í kaupstöðum og hreppsnefndum í hreppum er gefinn kostur á að njóta forkaupsréttar, þegar hreppsnefnd eða bæjarstjórn telur hættu á, að ræktunarlönd þau, sem um getur í 18. gr., geti við eigendaskipti komizt í fárra manna hendur, svo að þrengist um ræktunarlönd fyrir aðra hreppsbúa. Þykir sjálfsagt, að bæjar- og sveitarstjórnir sjái um, að einstakir íbúar í þorpum og bæjum verði eigi settir hjá við úthlutun þessara landa. En sveitar- og bæjarstjórnir eru taldar hafa beztan kunnugleika á að meta þessa aðstöðu.

Þá kemur 4. kaflinn, sem er um verkfærakaupasjóð, og eru það 12.– 17. gr. þessa frv. er um hann fjalla. Aðalbreyt., sem gerð er með þessu frv., er sú, að í staðinn fyrir, að hreppabúnaðarfélögum var úthlutað sérstakri sjóðseign, sem varð séreign þeirra og þau áttu þá oft sem innistæðu í sérstökum sjóði, þá verður nú um að ræða einn sjóð fyrir allt landið, og ber búnaðarfélaginu að meta þörf manna í ýmsum landshlutum fyrir þennan styrk eftir því, hver verkfæraþörfin kann að vera á hverjum tíma. Það hefur sýnt sig í framkvæmd núgildandi l., að sú breyt., sem hér er gerð, er eðlileg, þar sem nokkur af þessum félögum hafa ekki notað sjóðseignir sínar til verkfærakaupa, en önnur aftur á móti hafa þurft að fá lán og skulda því nú hinum sameiginlega verkfærakaupasjóði, en það er ætlazt til, að verði greitt á næstu 2 árum eftir að þessi l. koma til framkvæmda. Einnig hefur það komið í ljós, að í þeim landshlutum, þar sem þörfin fyrir vélakaup er mest, hafa félögin skipt styrkjunum niður þannig, að örlítill hluti hefur komið til einstakra manna, t.d. 20 til 30 kr. til að kaupa vélar, sem kostað hafa 4–7 þús. kr., og er auðséð, að slíkar styrkveitingar koma ekki að neinu gagni. Þá er líka lagt til, að styrkurinn verði minnkaður í hlutfalli við kaupverð, þannig að þar, sem áður var heimilt að veita helming, er það nú, og þar, sem áður var heimilt að veita 1/3, er það nú fært niður í 1/4. Hins vegar er hámarksstyrkurinn hækkaður úr 400 kr. upp í 700 kr.

Með 14. gr. eru sett nokkur ný ákvæði í 26. gr. l., til viðbótar þeim, sem fyrir eru. Má þar helzt til nefna, að styrkurinn til kaupa á dráttarvélum og skurðgröfum er bundinn sérstökum skilyrðum, en þau eru: að kaupin hafi verið samþykkt á almennum fundi í hlutaðeigandi félagi eða félögum, að Búnaðarfélag Íslands telji áhöldin félögunum nauðsynleg og að félögin hafi hús yfir áhöldin og selji þau ekki nema með samþykki félagsfundar og Búnaðarfélags Íslands. En eins og menn vita, hefur þótt á það skorta, að hirðing áhalda væri eins góð og vera bæri. Þetta ákvæði um hús yfir áhöldin er því að sjálfsögðu mjög mikil bót.

Þá er gert ráð fyrir í 16. gr., að innistaður, sem einstök búnaðarfélög eiga í sjóðum, skuli halda áfram að vera séreign þeirra. Einnig skulu þessi félög halda áfram að styrkji verkfærakaup meðlima sinna án þess að fá styrk úr hinum sameiginlega sjóði, þangað til innistæða þeirra er eydd. Hins vegar er gert ráð fyrir, að skuldir þær, sem safnazt hafa hjá einstökum búnaðarfélögum, skuli greiddar úr þessum sameiginlega sjóði á næstu 2 árum.

Ákvæðið í 17. gr. er um það, hvernig ávaxta skuli fé sjóðsins, og er það óbreytt frá því, sem það áður var.

Þá koma breyt. á 5. kafla, um vélasjóð, en um þær fjalla 18.–26. gr. frv. Þar er ákveðið með 18. gr. að stofna sérstakan vélasjóð. Stofnfé sjóðsins skal vera það, sem hann á nú í eignum, en það ern kr. 70471.73, og má ekki skera það. Jafnframt er svo ákveðið, að árlega skuli lagður við sjóðinn helmingur þess vaxtafjár, sem honum áskotnast. En aðalbreyt. er þó sú, að í staðinn fyrir ákveðið framlag, sem ríkissjóður átti að leggja fram í eitt skipti fyrir öll, sem voru 50 þús. kr., er nú gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi árlega fram ákveðna upphæð, 25 þús. kr., til sjóðsins. Samt skal helmingur vaxtatekna sjóðsins vera rekstrarfé hans á hverju ári.

Tilgangur sjóðsins er tvenns konar. 2/3 af stofnfénu á að verja til útlána til vélakaupa en 1/3 hluta af stofnfénu á að nota til vélakaupa samkvæmt því, sem mælt er fyrir í öðrum gr. um þetta.

Það lætur auðvitað að líkum, að sérstaklega mikil þörf er á því, að gerðar verði tilraunir með ýmsar vélknúnar jarðræktarvélar, sem lítið eða ekkert eru þekktar hér, og þykir sjálfsagt, að hið opinbera veiti styrki til slíkra tilrauna.

Í 22. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ríkið kaupi stórar skurðgröfur til meiri háttar framræslu. Áður var það svo, að vélasjóður keypti þær og lét gera tilraunir með þær, en síðar var ákveðið, að ríkissjóður keypti þær, ef ætti að nota þær til stærri framkvæmda. Með þessu ákvæði er hrundið af vélasjóði þeirri fjárhagslegu kvöð að þurfa að kaupa vélar, sem ekki er vitað fyrirfram, hvort nothæfar verða eða ekki, og sú áhætta færð yfir á ríkissjóð í staðinn.

Á 6. kafla laganna er gerð sú breyt., að Búnaðarfélagi Íslands er gefið meira vald til eftirlits með framkvæmdum, sem gerðar eru á erfðafestulöndum í kaupstöðum og kauptúnum, en áður hefur verið.

Þá er loks bráðabirgðaákvæði, þar sem gert er ráð fyrir, að þúfnasléttun á túni sé styrkt með ákveðinni upphæð, 400–500 kr. pr. ha., og er styrkurinn bundinn því skilyrði, að minnst 1/10 hluti þýfisins sé sléttaður árlega. Það getur að sjálfsögðu orkað tvímælis, hvort hægt verði að gera það, eins og nú er háttað vinnuafli í landinu, en það er ekki álitamál, að vinna beri að þessu eins og unnt er.

Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir helztu breyt. N. er öll sammála um, að þær nái fram að ganga. Einn nm., hv. form. n., hefur þó áskilið sér rétt til að bera fram brtt. við frv., og er hún nú komin hér fram, en hún er um það, að 17. gr. verði felld niður. N. út af fyrir sig hefur ekki tekið neina afstöðu til málsins. Það, sem ég hef því um það að segja, er einungis skoðun mín, en ég er andvígur því, að hún verði felld niður. Ég fel, að ef það yrði gert, þá yrði það til að ýta undir sölu og alls konar brask með jarðir í landinu, og ég tel, að frekar beri að vinna á móti því en efla það.

Ég óska fyrir hönd n., að frv. verði samþ. óhreytt.