12.05.1942
Efri deild: 55. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

84. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég get tekið undir það, sem hv. frsm. n. sagði í ræðu sinni, að n. hefði verið sammála um frv., eins og það liggur fyrir. Þó vildi ég bæta inn í það einu atriði, sem ekki er í því, en það er, að felld verði niður hin margumtalaða og þráttaða 17. gr. jarðræktarl.

Um þessa gr. hefur verið þrasað mikið í blöðum, á þingi og mannfundum. Ég get því verið stuttorður um hana hér og vil ekki gefa ástæður til að leng ja umr. um þetta mál nú. En eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er þessi 17. gr. um að meta skuli, hve mikið verðmæti á jörðum hefur aukizt við styrki, sem greiddir hafa verið úr ríkissjóði. Skal sá hluti styrksins færður í sérstakan dálk í fasteignamatsbók sem fylgifé býlisins, og þó meðtalinn í matsverði þess samanlögðu. Telst fylgiféð sem vaxtalaust framlag ríkissjóðs til býlisins, og er óheimilt að selja eða veðsetja þann hluta fasteignarinnar, sem matsverði styrksins nemur. Ég ætla ekki að lesa hér upp þessa grein, hún er öllum hv. þdm. svo kunnug. Aftur á móti vil ég aðeins minnast á sögu þessa máls á síðast liðnum 2 árum.

Á búnaðarþinginu 1939 var skipuð mþn. til að gera till. um og athuganir á jarðræktarl., og í þessari n. starfaði ég um tíma fyrir hönd Jóns á Reynistað. Þá komst á samkomulag milli nm. um að fella skyldi niður 17. gr., en í hennar stað yrði aftur á móti lagður aukinn söluskattur á jarðeignir landsins. En þegar á búnaðarþing kom og ræða átti um þetta mál, náðist ekki samkomulag. Þá kom frá Framsóknarflokknum hækkunarkrafa á söluskattinum ásamt fleiri atriðum, sem varð til þess, að frá okkur sjálfstæðismönnum kom fram hækkunarkrafa um það hvar söluskatturinn ætti að byrja, þegar sala jarðar væri komin fram yfir fasteignamatsverð. Þetta fór þannig, að söluskatturinn náði ekki fram að ganga og 17. gr. stóð, og breyt. á jarðræktarl. voru afgreiddar með atkvæðum meiri hl. búnaðarþingsmanna, eins og þær liggja fyrir nú, en náðu þá ekki samþykki á Alþingi. Nú hafa þær verið teknar upp aftur á þessu þingi, og það, sem m.a. hefur tafið málið, er, að farið hafa fram samkomulagsumleitanir hér á Alþingi milli flokka um það, hvort ekki væri rétt að fella niður 17. gr., sem svo mörgum hefur verið þyrnir í augum. Við sjálfstæðismenn teljum hana mjög skaðlega fyrir búnaðarframfarir. Hún gerir það að verkum, að sumir bændur vilja alls ekki taka við jarðræktarstyrkjum, en af því leiðir, að hjá þeim mönnum, sem ekki vilja taka við styrkjum á umbætur sínar, verður miklu minna úr framkvæmdum en ella. Aðrir hafa aftur á móti tekið við styrknum, en finna þó, að þeir hafa ekki núna eins kvaðalaus umráð yfir jarðeigmun sínum og áður, og ganga því meira hálfvolgir að framkvæmdum en ella.

Út af ákvæðinu í 2. málsgr. 17. gr. vil ég geta þess, að ég held, að þess sé lítið eða ekkert gætt, hvort því er fylgt. Ég veit ekki til þess, að fengin hafi verið yfirlýsing frá Búnaðarfélagi Íslands um það, hvaða kvaðir vegna þessara styrkja lægju á jörðum. Og þó er þetta fyrirskipað. Yfirleitt er svo komið með menn, að þeir telja þetta máttlaust ákvæði, en eru þó hræddir við það. Þetta er vandræðaástand. Menn telja víst, að innan örlítils tíma verði þessu breytt. Og það er sannast að segja, að nú viðurkenna framsóknarmenn það einnig, að þessi gr. hafi ekki náð tilsettu marki, og vil ég til áherzlu á mál mitt, með leyfi hæstv. forseta, taka hér upp nokkur orð úr ræðu hv. þm. Mýr. við 2. umr. þessa máls í hv. Nd., en hann er nú form. Búnaðarfélags Íslands og var um eitt skeið einn ákveðnasti stuðningsmaður þess, að 17. gr. komst inn í lögin: „.... Ég hef sannfærzt um það betur og betur, eftir að reynsla hefur komið um það mál, að þessi 17. gr. er allsendis ónóg til þess að ná þeim tilgangi, sem fyrir löggjafanum vakti, þegar þetta ákvæði var sett í lög.“ Og hann segir einnig: „Trú mín á það hefur minnkað, að 17. gr. þessara laga sé þess umkomin að ná því takmarki, sem henni hefur verið ætlað. Á þessu sést, að þetta getur ekki staðið svona til lengdar, þegar helztu stuðningsmenn að þessari grein eru algerlega búnir að missa trúna á þetta ákvæði. Það hlýtur fyrr eða síðar að hverfa, og þegar svo er komið, er bezt, að það hverfi sem fyrst.

Ég verð líka að segja það, að maður hefur ýmis hliðstæð dæmi um styrki til framkvæmda á láði og legi, sem ekki er ætlazt til að séu reiknaðir til skuldar, heldur hverfa í eign þeirra, sem verkið vinna, eða eiganda þess mannvirkis, sem styrkurinn er veittur til. Þannig er það t.d. með styrki til lendingarbóta og bryggjugerða. Þeir, sem þessi verk vinna, fá styrki, sem inn í eignina renna, en þó eiga þeir hana kvaðalaust. Þetta er orðið hálfgert viðutanákvæði, sem enginn hefur lengur trú á, að hjari til lengdar, og margir fara alls ekki eftir. Ég tel sjálfsagt að kanna nú vilja hv. d., hvort engu verði um þokað í þessu máli nú þegar. Þess vegna hef ég komið með þessa till.

Ég veit, að sumir hv. þdm. hefðu viljað bíða til búnaðarþings með þetta, en ef það er sannfæring manna, að gr. sé óþörf og nái ekki tilgangi sínum, því fyrr, því betra að fella hana úr lögum.