12.05.1942
Efri deild: 55. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

84. mál, jarðræktarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það liggja fyrir 2 brtt., og vil ég segja nokkur orð um þær. Hv. síðasta ræðumanni finnst réttara að miða styrkupphæðina við ásigkomulag býlisins. Ég er honum sammála um, að sá grundvöllur sé í raun og veru réttari, en samt get ég ekki fylgt till. hans, af því að hana vantar undirstöðu til að standa á. Með l. 1918 var fyrirskipað, að tún skyldu mæld. Þetta var gert nokkuð víða, og frá þessum tíma liggja á hagstofunni ummálsriss af túnum landsins og sýna aðeins stærð túnanna. Síðan hefur ekkert verið gert. Það var mikið umtal um það, þegar fasteignamat var gert 1930 og aftur í þessu fasteignamati, að slíkar mælingar þyrftu að fara fram aftur. Það umtal komst svo langt, að fasteignamatsnefndum var falið að gizka á um stærðina, hve mikið væri véltækt o.s.frv. Sumir hafa gert þetta, aðrir ekki. —afleiðingin er, að grundvöllurinn, sem væri hægt að byggja á, er ekki til. Þó að við vildum hverfa að því ráði, sem felst í brtt., þá er ekki hægt að gera það nú. Þess vegna verð ég að greiða atkv. á móti till., sem annars væri góð.

Hin brtt. er um að fella niður 17. gr., og var það fært fram, að reynsla væri fyrir því, að hún næði ekki tilgangi sínum. Það er nú svo. Reynslan er ekki mikil enn. Í fyrsta lagi er það fylgifé, sem bundið er í jörðunum með jarðræktarl., mjög lítið. Þær jarðir eru teljandi, þar sem það nær hundruðum. Aftur eru hinar jarðirnar margar, sem hafa allmikið fylgifé í húsum, hafa fengið nýbýlastyrk og endurbyggingarstyrk. Það er ekki hægt að draga aðra ályktun en að eins muni fara með jarðræktarstyrkinn, þegar um eitthvað verður að ræða. Tilgangurinn var, að styrkurinn yrði ekki bara til að auðga viðkomandi mann, heldur til að létta undir með öllum, sem jörðina sætu, og það má kannske gera það betur á annan hátt. Ég lit svo á, að þegar við finnum, að eitthvað sé að, eigum við að reyna að finna betra form og bæta galla fyrirkomulagsins, en ekki afnema fyrirkomulagið sjálft að óreyndu. Það mun ég styðja, en ekki hitt, að láta styrkinn falla beint í eign viðkomandi manns og láta hina, sem á eftir koma, líða við það.

Það var sagt í gær, að það væri nýbúið að selja jörð nálægt Reykjavík fyrir 81 þús. kr., sem ber 16 kýr og á þriðja hundrað fjár. Ég veit, að þeir, sem kaupa, láta aldrei þessar skepnur standa undir vöxtunum. Þarna er um að ræða verðhækkun fyrir jarðræktarstyrk. Hugsunin, sem liggur á bak við 17. gr., er rétt, svo að ef hún nær ekki tilgangi sínum, eigum við ekki að afnema hana, heldur eigum við að búa til nýja 17. gr.

Það er rétt, að enn þá eru því miður veitir styrkir af því opinbera, sem almenningur hefur ekkert gagn af, heldur bara einstakir menn. Við skulum taka t.d. hafnargerðir. Lóðirnar á staðnum hækka og hækka, þangað til komið er í óefni. Þetta hef ég oft bent á, og einu sinni var samþ. þál. um að rannsaka, hvernig mætti ráða á þessu bót. Þm. eru byrjaðir að fá skilning á því, að líka á því sviði þurfi að gera það sama og reynt var að gera með 17. gr. jarðræktarl.

Ég er því á móti báðum brtt., annarri af því, að ég er á móti hugsuninni, sem á bak við hann er, en hinni, af því að hana vantar grundvöll til að standa á.