30.04.1942
Neðri deild: 45. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

90. mál, hafnarlög fyrir Patreksfjörð

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Á Patreksfirði er að vísu allgóð höfn frá náttúrunnar hendi, en aðstaða almennings til útgerðar er ekki góð, vegna þess að þar er engin bryggja, sem er í eign almennings, og þær einstaklingsbryggjur, sem þar eru, eru of litlar fyrir þá útgerð, sem risið hefur upp á Patreksfirði s.l. ár. Þetta frv. miðar að því að koma hafnarmálum Patreksfjarðar í það lag, sem nauðsynlegt er fyrir kauptún, sem rekur útgerð, og virðist ekki nema eðlilegt, að þessi staður fái sömu aðstöðu í þessum efnum og önnur hliðstæð kauptún.

Það liggja ekki fyrir áætlanir um kostnað við þessar framkvæmdir, en n. hefur borið þetta mál undir vitamálastjóra, og eftir það viðtal hefur n. orðið ásátt um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.