15.05.1942
Efri deild: 58. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

90. mál, hafnarlög fyrir Patreksfjörð

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta mál kom frá Nd. og er flutt af hv. þm. Barð. Það lá fyrir sjútvn. þeirrar d., og gerði hún engar breyt. á frv. Í þessu kauptúni, sem hér um ræðir og mun hafa á 8. hundrað íbúa, er mikil útgerð, sem stöðugt fer vaxandi, og miklar framkvæmdir í sambandi við hana. T.d. er þar eitt hraðfrystihús og annað er verið að reisa. En til þess að geta tekið við fiski, er þar nú aðeins ein hafskipabryggja, svo að talsverðar tafir verða á afgreiðslu fiskibátanna. — Menn hafa nú í hyggju að koma upp nýrri bryggju, en til þess að standast kostnað af smíðinni þarf að vera hægt að leggja gjald á vörur, sem er útskipað og innskipað í þorpið. Þetta er mergur málsins, sem liggur bak við þetta frv.

Meiri hl. sjútvn. þessarar d. hefur lýst sig fylgjandi frv. Einn nm., hv. þm. Vestm., var fjarstaddur, en ég geri ráð fyrir, að hann sé okkur sammála. Við leggjum því til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá Nd.