16.03.1942
Neðri deild: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

37. mál, byggingar og landnámssjóður

*Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Rang. (SvbH), að bráðabirgðaákvæðið, sem sett var inn í l., um styrk til ábúenda á jörðum, sem eru í einkaeign, sé fellt niður með þessu frv. Þetta ákvæði stendur í l. enn, og var það sett sem bráðabirgðaákvæði í l. og er þar enn með öllu óhreyft af þessu frv. Þar er því ekki um breyt. að ræða eftir frv. Hitt er rétt, sem hv. 1. þm. Rang. nefndi, að það verður að líta svo á, að húsabótaskylda samkv. l. eigi að vera komin til framkvæmda.

Við leggjum ekki til, flm. þessa frv., að ákvæðið, sem hv. 1. þm. Rang. minntist á, verði fellt niður úr l. Hins vegar skal ég lofa hv. þm. því, að það atriði skal athugast í n., sem væntanlega fær málið til meðferðar, landbn., þar sem við allir, sem flytjum frv., eigum sæti, hvort ástæða sé til að breyta eitthvað ákvæðunum um þetta efni. Þetta var sett inn í fyrstu af þeirri ástæðu, að frá mínu sjónarmiði og ýmissa annarra, — a.m.k. frá mínu sjónarmiði — er það heppilegast, að jarðir séu í sjálfsábúð eða í opinberri eign og leigðar á þann hátt. Ég tel óheppilegt, að einstakir menn eigi jarðir til þess að leigja þær út. Þess vegna tel ég það orka tvímælis, að þeir, sem þannig eiga jarðir, eigi að hafa sömu aðstöðu til þess að fá styrk til þess að byggja upp á jörðum sínum og aðrir. Hitt er það, að það er oft engu síður þörf á að hjálpa til með byggingu á slíkum jörðum, því að landsdrottinn hefur oft ekki ástæður til þess. En séu það stórríkir menn, sem kaupa upp jarðir í sveit og leigja þær út, tel ég, að ekki eigi að veita endurbyggingarstyrk til slíkra jarða.

Ég skal lofa hv. þm. því, að þetta skal verða athugað sérstaklega, og hvort ástæða sé til breytinga.