15.04.1942
Neðri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

37. mál, byggingar og landnámssjóður

*Jón Pálmason:

Út af þessari brtt. hv. þm, Seyðf. vil ég segja nokkur orð.

Það mun hafa verið upplýst af hv. frsm., 2. þm. Skagf., við 2. umr., hvers vegna við flm. höfum lagt þetta til og hvers vegna landbn. hefur mælt með því. Hér er ekki um það að ræða, sem hv. þm. Seyðf. vill vera láta, að þetta sé til að hvetja menn til að vanrækja að tryggja eignir sínar, heldur er það sprottið af því, að eins og l. um skyldutryggingu sveitabæja er háttað, þá er sú trygging svo lág, að það er ekki nema lítið brot af því, sem endurbygging kostar, ef bær brennur. Og það kom krafa frá hæstv. stj. til nýbýlastj., varðandi eitt tilfelli, um að veita hærri styrk en heimilt er í l. af þessari ástæðu, krafa, sem ekki var unnt að óbreyttum l. að sinna. Þess vegna er lagt til að fá slíka heimild inn í l. vegna þeirrar miklu nauðsynjar, sem í einstökum tilfellum getur verið um að ræða. Því miður er ástandið þannig, þar sem brennur á sveitabæjum, að það eru ekki eingöngu húsin, sem farast, heldur einnig verkfæri, matvæli, eldsneyti o.s.frv., og af því að það er, eins og sakir standa, almennast óvátryggt, þá er slíkt tjón svo mikið, að það er vissulega ekki neitt út í bláinn, þó að slík heimild sé sett í l. Hitt er svo annað mál, sem takandi er til athugunar, hvort ekki sé vert fyrir Alþ. að gera eitthvað til þess að skylda einstaklinga í þessu efni til þess að tryggja. En almennt horfir málið þannig við í sveitum nú, og þess vegna vil ég, og ég veit, að það er vilji meiri hl. landbn., alvarlega óska þess, að brtt. verði felld.