15.04.1942
Neðri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

37. mál, byggingar og landnámssjóður

*Haraldur Guðmundsson:

Ég held, að það sé rétt, að svo geti farið, að tryggingarfé verði ekki nægilegt til þess, að eigandi verði skaðlaus, ef bær brennur, en það eru þá ákvæði þeirra l. (brunabótal.), sem á að breyta, en ekki l. um byggingar- og landnámssjóð. Ég veit líka, að það er rétt, að ef eigandi byggingarinnar hefur ekki tryggt verkfæri, matvæli, eldsneyti eða annað slíkt, þá verður hann fyrir tjóni, ef brennur hjá honum, eins og hver annar borgari, sem missir sínar eigur. En það er fjarri öllum sanni, að ætla þessum sjóði að bæta það. Ég játa, að ég geri ekki ráð fyrir, að hér sé um stóra upphæð að ræða, en þetta er gersamlega óskylt verkefni sjóðsins, og enn fremur felst í þessu hætta á, að ýtt sé undir vanrækslu í að vátryggja nægilega hátt fasteignir og enn fremur að tryggja ekki lausamuni. Ég vil því mjög beina því til stuðningsmanna frv., hvort þeir vil ja ekki taka til athugunar l. um brunabótafélagið, heldur en að láta byggingar- og landnámssjóð taka þetta á sig.