04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

37. mál, byggingar og landnámssjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Frv. þetta, sem er hingað komið frá Nd:, er um breyt. á l. um byggingar- og landnámssjóð, sem voru samþ. á þinginu í fyrra. Er þar í fyrsta lagi lagt til, að gerð verði sú breyting, að úr 9. gr. falli hámarksákvæði á láni úr byggingarsjóði til hvers býlis. Í öðru lagi er lagt til að breyta skilyrðunum fyrir, að endurbyggingarstyrk megi veita. Í núgildandi l. er svo ákveðið, að fasteignamat þeirra húsa, sem endurreisa á, megi ekki vera hærra en 1800 kr.; en þetta er lagt til, að verði fært upp í 3000 kr. Í þriðja lagi er það, að ef ábúandi jarðar verður fyrir tjóni af húsbruna, þá megi nýbýlastjórn veita hærri styrk en ella með samþykki ráðherra. Í fjórða lagi, að hámarksstyrkur til nýbýlis hækki um 1500 kr., úr 4500 kr. í 6000 kr.

Landbn. hefur athugað þetta frv. og er sammála um að mæla með því, en leggur til; að gerðar verði við það nokkrar breyt. Við sendum frv. til stjórnar Búnaðarbanka Íslands til umsagnar, og taldi hún ekki rétt að hafa takmarkalausa heimild til lánveitinga úr sjóðnum, og féllst n. á það og leggur því til, að hámarksákvæðið verði ekki fellt niður, en verði hækkað úr 6000 kr. í 7500 kr. Stjórn bankans sýndi líka fram á, að ef lána mætti lítt takmarkað úr sjóðnum, mundi brátt þrjóta það fé, sem þar væri. En það er ekki mjög mikið, og sjóðurinn skuldar nú um 1 millj. kr., svo að þess vegna verður þar að spyrna fótum við.

Þá er brtt. við það ákvæði frv., sem er um tjón af völdum húsbruna. Það töldum við ekki vera nógu víðtækt og álitum, að tjón af völdum annarra náttúruafla mætti færa undir það sama, og viljum því láta þessa heimild einnig ná til þess, svo sem ofviðris, snjóflóða og jarðskjálfta. Ég vil benda á, að í þessari brtt. er prentvilla. Þar stendur „Aldrei þá þó“, en á að vera „Aldrei má þó“, og verður það að sjálfsögðu lagfært.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Við leggjum til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem við berum fram á þskj. 297.