07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

43. mál, húsaleiga

*Ingvar Pálmason:

Það kom brátt í ljós, þegar brbl. þessi frá 8. sept. 1941 um húsaleigu fóru að verka, að þau vildu valda allmiklum árekstrum, og stórkostlegum óþægindum. Og ég þarf ekki að rekja það neitt nánar, því að frv., sem hér liggur fyrir, er sönnun fyrir þeim árekstrum. Nú virðist svo sem þetta frv. hafi aðeins komið fram af því, að árekstur varð í sambandi við mann, sem er í þjónustu hins opinbera, og það var viðurkennt, bæði af hæstv. ríkisstj. og hv. Nd., að það næði ekki nokkurri átt, — og ég er sammála um það —, að ákvæðin um það gildi í þessum tilfellum, að þeir, sem eignazt hafa hús, eftir að I. þessi um húsaleigu öðluðust gildi, hafi allt annan rétt heldur en þeir, sem hafa átt húsin áður. En hér á að gera þann greinarmun, að menn í opinberum stöðum eða embættum hafi sérréttindi í þessum efnum. Og ég verð að segja, að þetta er heldur óvenjulegt í löggjöf, að ekki gildi sömu lög fyrir alla þegna þjóðfélagsins. Það getur þó komið fyrir í einstökum tilfellum, að það sé réttlætanlegt. En að setja þetta í almenna löggjöf, að eignarrétturinn sé annar, ef menn eignast hlutinn eftir vissan dag, heldur en ef þeir hafa átt hann áður, það held ég, að sé mjög lítið þekkt í íslenzkri löggjöf. Og það sjá allir, að af þessu leiðir misrétti. Og misréttið verður enn þá meira, ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, verður samþ. Því að þá er, um leið og misréttið er viðurkennt, þetta misrétti aðeins lagfært, þegar opinber starfsmaður á í hlut. Ég get nefnt dæmi um það, hve óeðlilega þetta ákvæði verkar. Ég þekki dæmi, þar sem fjölskyldumaður stóð í samningum um húsakaup, þegar þessi l. voru gefin út. Og það stóð ekki á öðru heldur en greiðslum og afsali; en greiðslurnar og afsalið dróst fram yfir septembermánuð. Þessi fjölskyldumaður hefur fyrir að sjá 10 börnum og tveimur gamalmennum, og hann býr í húsnæði, sem er 5 og 7 metrar á kant, með litlu porti og risi. Og í þessu þarf hann að búa með 14 manns. Eignin, sem hann keypti, var dýr, en það kemur ekki málinu við. Í þeirri íbúð, sem hann keypti, eru 13 íbúðarherbergi. Hún var leigð manni, sem hefur 4 manns í heimili. Nú sjá allir, að húsaleigunefnd, sem ekki væri bundin á höndum og fótum af löggjöfinni, mundi tvímælalaust úrskurða þannig, að þessi húseigandi hefði svo knýjandi þörf fyrir það húsnæði, sem hann er eigandi að, að honum væri heimilt að segja upp húsnæðinu þeim, sem í því var fyrir með 4 manns í heimili. En þetta ákvæði l. um, að maður þurfi að vera orðinn eigandi hússins fyrir vissan dag til þess að fá að njóta eignarréttar síns í þessu efni, bindur húsaleigunefnd svo gersamlega á höndum og fótum, að hún getur ekki úrskurðað í þessu tilfelli á þann veg, að þessi húseigandi megi nota sitt eigið hús til sinna eigin afnota, enda þótt honum sé mjög brýn nauðsyn á því. Húsnæðisleysið hefur ekki verið meira en það á þessum stað, að húsaleigan eftir þetta hús, sem maður þessi keypti, var 1000 kr. á ári, og á síðasta ári var hún hækkuð í 1200 kr. á ári. Nú sjá allir, að það er ekki nóg með það, að þessum manni er gert rangt til í því efni, að hann getur ekki flúið úr húsi, sem hann getur ekki notað, og í sína eigin réttmætu eign, heldur getur hann ekki hækkað húsaleiguna, sem allir sjá þó, að er ekki fyrir helmingnum af vöxtunum af því fé, sem í eigninni stendur, nema um 14%. Ég nefni þetta vegna þess, að hér eru sett l. vegna embættismanns, sem á að flytja í nágrenni Reykjavíkur, og hæstv. Alþ. sá fulla ástæðu til að breyta l. vegna þess, að þar átti sér stað það, sem hv. frsm. hafði þau orð um, að næði ekki nokkurri átt.

Ég skal hins vegar viðurkenna það, að það getur vel verið, að það standi öðruvísi á í húsnæðismálunum hér í Reykjavík heldur en sums staðar úti á landi, og ég vil ekki blanda mér inn í þessi mál, að því er Reykjavík snertir, til þess hef ég of litla þekkingu. En hitt fullyrði ég, að þessi l. eru með öllu óréttlát í smærri kaupstöðum og kauptúnum og það að fleiru leyti en að því, er snertir opinbera starfsmenn. Ég verð því að segja það, að ég get ekki fylgt þessu frv. óbreyttu, sem er af því, að í frv. er það viðurkennt, að löggjöfin er ranglát, en það er ekki bætt úr ranglæti hennar nema að hálfu leyti, (P.Z: Ekki nema að einum þúsundasta.) aðeins þegar opinberir starfsmenn eiga í hlut. Og að hinu leytinu eru þessi l. ranglát, að með þeim er leiddur í lög tvenns konar réttur, sem húseigendur og leigjendur eiga að búa undir. Og þetta álít ég, að hæstv. Alþ. geti tæplega látið frá sér fara. Ég geri nú tilraun til að bæta úr þessu með því að flytja brtt. á þskj. 325, og þar geri ég ekki ráð fyrir, að þetta ákvæði, sem ég hef rætt um, verði numið burt úr l., en það hefði ég helzt kosið. En ég heyri, að fulltrúar Reykjavíkur og fleiri halda því fram, að þetta ákvæði sé nauðsynlegt hér í Reykjavík og kannske vegna stærri kaupstaða annarra líka, og ég vil ekkert fullyrða um það. Þess vegna legg ég til, að ákvæðið standi áfram í l., en gildi aðeins fyrir þá bæi og kauptún, sem hafa 2004 íbúa eða fleiri. Hvers vegna eigum við að setja húsaleigulög gildandi fyrir þá staði, þar sem aldrei hefur verið beðið um slik l.? Orsökin til þess, að l. voru fyrst sett, var húsnæðisleysið hér í Rvík. (MJ: Það var mesta della, að þau voru sett.) Ég vil alls ekki dæma um það. Ég get búizt við því, að þau hafi kannske verið nauðsynleg í Reykjavík. En hitt finnst mér, að hæstv. Alþ. geti gengið inn á, að ástæðulaust sé að vera að setja l., sem valda jafnmiklum árekstrum og þessi l. hafa gert, þar á landinu, sem þeirra er ekki þörf. Ég þarf ekki að sanna neitt sérstaklega um það, að þau hafi valdið árekstrum, því að frv. það, sem hér liggur fyrir, og grg. þess og það, sem með frv. hefur verið mælt, sannar alveg minn málstað. Ég held því, að það sé full ástæða til þess fyrir hæstv. Alþ. að taka það vel til athugunar, hvort það er þess vert að láta þetta ranglæti ná alveg niður úr, hve smáa staði eftir fólksfjölda um er að ræða á landinu, og hvort ekki er fremur rétt að draga eitthvað úr því. En þó að brtt. mín verði samþ., sem snertir hina smærri staðina, þá er samt tilgangi frv., að því er hina stærri snertir, náð.

Ég hef gert ráð fyrir því, að 2. mgr. 1. gr. frv. falli niður, en hún hljóðar um, að l. geti verkað aftur fyrir sig. Hér á Alþ. hafa menn löngum haft ótrú á slíkum ákvæðum, enda er það þýðingarlaust. Ég ætlast til þess, að brtt. mín verði 1. gr., ef samþ. verður. Það getur verið, að hv. þd. fallist ekki á þessa brtt. Meðnm. mínir vildu ekki á hana fallast. — Hins vegar skil ég ekki afstöðu þeirra, ef þeir telja þessi l. óhafandi, að því er snertir embættismenn, en telja þau nauðsynleg, að því er snertir alla aðra.

Ég vænti því, að hv. þd. geti á þessa brtt fallizt. Skal ég svo að sinni láta útrætt um málið. Um húsaleigul. almennt er það að segja, að þau hafa vafalaust gert gagn hér í Reykjavík. Engu að síður álít ég, að þörf sé á því að endurskoða þau rækilega. Sú aðferð að káka alltaf við l., er ekki heppileg. Það hefði verið betra að umskapa þau í betra horf en framlengja þau um eitt ár.