11.05.1942
Efri deild: 54. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

43. mál, húsaleiga

Fjmrh. (Jakob Möller):

Hv. 2. þm. S.– M. talaði hér síðast og var allbyrstur gegn ranglæti húsaleigul., og vil ég sízt af öllu deila við hann um það, því að það er sjálfsagt viðurkennt af öllum, að slík l. hljóta samkv. eðli sínu að koma allmisjafnlega niður, og það er erfitt við því að gera. En þá er á það annað að líta, hvort á að meta meira þá almenningsnauðsyn, sem talin er vera til þess, að slík l. hafa verið sett, eða hagsmuna þeirra einstaklinga, sem verða fyrir barðinu á löggjöfinni í ýmsum tilfellum og að vísu mismunandi tilfinnanlega. Þessi hv. þm. ber hér fram brtt., sem miðast fyrst og fremst við hagsmuni eins manns, og er ekkert að því að finna, þó að einstök dæmi komi fram. En ef þessari löggjöf verður breytt með tilliti til einstaklinga, þá eru það vitanlega fleiri en þessi maður, sem koma til með að njóta þeirra breyt. Og ef á að fara að miða við hagsmuni einstaklinganna hvers út af fyrir sig, þá er ákaflega hætt við, að ekki muni verða komizt hjá því að hrófla við þessari löggjöf, áður en langt um líður.

Hins vegar vil ég aðeins að þessu sinni vekja athygli hv. þd. á því, sem hér er sérstaklega um að ræða, því atriði, að þetta frv., sem hér hefur verið borið fram, er flutt eftir ósk atvinnumálaráðuneytisins, þ.e.a.s. sveitarstjórnarmálaráðuneytisins, í raun og veru aðeins til samræmingar á ákvæðum gildandi l. Það verður varla sagt, að það sé nokkuð nýtt, sem farið er fram á með þessu frv. L., eins og þau voru sett, eru þannig, að húsaleigunefnd er gefið leyfi til þess að samþykkja, að uppsögn á húsnæði megi eiga sér stað, þegar húseigandi vill leigja utanbæjarmanni, þegar sérstaklega stendur á, og þar er átt við það, ef utanbæjarmaður vegna starfa sinna, sem hann er skipaður til, verður að flytja til viðkomandi bæjar eða þorps, þar sem húsaleigul. gilda. M.ö.o., lögin, eins og þau voru, gera ráð fyrir, að það sé hægt að bjarga við nauðsyn aðfluttra manna, sem skipaðir eru í opinber störf og taka húsnæði á leigu, en hins vegar gera þau ekki ráð fyrir, að menn, sem hafa alveg sömu þörf til þess að flytja inn í sveitarfélagið, ef þeir kaupa húsið, fái sams konar rétt, þannig að l. í þeim tilfellum heimili uppsögn á leigusamningum vegna þarfa slíkra manna. Það er ekkert farið hér fram á annað en samræmingu á ákvæðum l. í þessu efni. Það, sem frv. fer fram á, er eingöngu það, að sá, sem undir slíkum kringumstæðum kaupir hús, geti komizt inn í húsið á sama hátt og maður, sem er utanbæjarmaður, í sömu kringumstæðum getur komizt inn í hús, sem hann leigir húsnæði í. En að vísu má segja, að það sé með tilliti til sérstaks tilfellis, að stofnað hefur verið til þessarar breyt, á l. En það eru þó ekki einstaklingsástæður, sem þetta verkar fyrir, heldur sú almenna nauðsyn, sem er á því, að opinberir starfsmenn geti komizt að starfi sínu þar, sem þeir eru skipaðir til starfs.

Um hitt, sem hv. 2. þm. S. M. veik hér að og stefnir að með brtt. sinni, að takmarka verksvið húsaleigul. við bæi með ákveðna íbúatölu, þ.e.a.s. yfir 2000, þá náttúrlega mætti vel um þetta ræða. En ég hygg, að það verði varla sagt, að það atriði sé svo vel undirbúið sem æskilegt væri, til þess að fært geti talizt að gera þá almennu breyt. á l. Ég skal ekki segja, hvernig ástatt er í Neskaupstað í þessu efni, sem hv. þm. talaði sérstaklega um, hvort það kann að vera svo, að þar sé engin þörf vegna almennings á því að hafa þar í gildi slíka löggjöf. Það getur vel verið hugsanlegt, að þannig gæti verið ástatt í einhverju byggðarlagi, kauptúni eða kaupstað, að þessara l. sé ekki þörf. En ef svo er t.d. um Neskaupstað, þá lægi beinast við, að bæjarstjórnin þar sendi hæstv. Alþ. erindi um að undanþiggja kaupstaðinn því að verða að hlíta þessari löggjöf. Og án þess að slík tilmæli liggi fyrir, finnst mér nú ekki fært að gera þá breyt., sem hv. 2. þm. S.M. fer fram á. Það gæti breytt málinu, ef það að undangenginn rannsókn teldist óeðlilegt, að l. giltu á þessum stað.

Ég vil svo að lokum vekja athygli á því, að það getur valdið mjög verulegum óþægindum, ef ekki og greitt fyrir því, að opinberir starfsmenn, ekki sízt læknar, sem eiga að flytja inn í héruð, þar sem þeim hafa verið veitt embætti, geti fengið húsnæði, og þeir verða af þeim ástæðum e.t.v. að hrökklast í burt aftur.