03.03.1942
Efri deild: 9. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

18. mál, stimpilgjald

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það er óþarfi að fara mörgum orðum um þetta frv., sem hér liggur fyrir nú. Það lá fyrir síðasta þingi í þessari hv. d., en dagaði þá uppi, og má segja, að það sé flutt orðrétt frá því, sem það var þá. Þó skal geta þess, að bætt hefur verið inn í það ákvæði til áherzlu, um það, að þeir, sem hafa með höndum stimplun skjala, skuli gæta þess, að hin stimpilskylda upphæð sé ætíð rétt tilgreind. Það þótti rétt að hafa það ákveðnara eins og hér er gert, og geri ég ráð fyrir því, að frekar muni verða haft eftirlit með þessu, þegar það er skýrt ákveðið í þessari gr. l. Og ég vænti þess líka. ef frv. verður samþ., að fjmrn. hafi eftirlit með því, að umboðsmenn þess gæti þess, að rétt sé tilgreint. Eins og nú standa sakir, er það mesta nauðsyn, að frv. þetta verði gert að l., því að ekki hefur ástandið í þessu efni, sem reynt er nú að bæta úr, batnað, síðan það lá fyrir síðasta þingl. Í staðinn fyrir tvöfalt og þrefalt verð fasteigna, sem þær hafa verið seldar fyrir, er það nú orðið margfalt. Ég hef vitað til þess, að nú er það allt að því sexfalt og jafnvel áttfalt, sem sumar eignir fara nú fyrir hér í bænum fram yfir fasteignamatsverð.

Ég held það hafi verið töluverður skaði fyrir ríkissjóð, að frv. náði ekki fram að ganga á síðasta þingi, því að tekjurnar af þessu mundu hafa numið tugum eða hundruðum þúsunda. Og þegar svo er komið málum og fjármálaráðuneytið hefur ekki hafizt handa, þykir mér rétt að láta þetta frv. koma hér aftur fram. Ég get búizt við, að ýmislegt sé í því, sem þurfi umbóta við, og treysti ég því, að hv. fjhn. ráði bót á því.

Ég vænti svo, að frv. fái hraða og góða afgr. hjá n., og að svo vöxnu máli vil ég ekki eyða fleiri orðum um málið.