15.04.1942
Efri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

18. mál, stimpilgjald

*Magnús Gíslason:

Herra forseti! Í gr. fyrir því frv., sem hér liggur fyrir til umr., er þess getið, að gætt hafi nokkurs ósamræmis um ákvörðun stimpilgjalds við sölu fasteigna. Sömuleiðis, að fasteignir hafi verið seldar þannig, að við söluna hafi ekki verið tilgreint söluverð í kaupsamningi eða afsalsbréfi, og að þeir, sem annazt hafa stimplun á slíkum skjölum, hafi hallazt að því að stimpla þessi skjöl eftir fasteigna mati hinnar seldu eignar. Og enn fremur segir þar, að þar sem fasteignir séu nú seldar við tvöföldu eða þreföldu verði á við fasteignamat, og ríkissjóður tapi því verulegu með því, að kaup- og afsalsbréfin séu stimpluð eftir fasteignamati, þá hafi flm. borið þetta frv. fram til að ráða bót á þessu. Frv. gengur meðal annars í þá átt, að ef ekki sé tiltekið verð í afsali eða kaupsamningi, þá skuli aldrei áætla kaupverðið lægra en tvöfalt fasteignamatsverð hinnar seldu eignar.

Ég skil vel tilganginn með þessu frv., sem sé að koma meira samræmi á í þessu og fyrirbyggja, að sumir, sem hafa með höndum kaup og sölu á fasteignum, sleppi með að greiða lægra gjald en vera ber og aðrir greiða. Hve mikil brögð eru að því, að menn sleppi þannig við gjöld, veit ég ekki, en tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi voru síðasta ár miklu hærri en þær nokkurn tíma áður hafa verið. Stimpilgjaldið, sem inn kom, var helmingi hærra en það var áætlað á fjárl., eða um 1200000 kr. Þetta bendir ekki til þess, að mjög mikil brögð hafi verið að því, að afsöl fyrir fasteignum hafi verið stimpluð mjög miklu lægra heldur en vera bar eftir raunverulegu kaupverði. Það eru tvær meginstoðir, sem renna undir tekjurnar af stimpilgjaldinu, sala á víxlum og skuldabréfum annars vegar, sem bankarnir aðallega annast um innheimtu á stimpilgjaldi af, og hins vegar fasteignasala. Um stimpilgjald af víxlum veit maður það, að sala á víxlum hefur á síðasta ári verið minni heldur en almennt gerist, svo að af stimpilgjaldi af þeim geta ekki hafa komið auknar tekjur.

Hitt er líka víst, að fasteignamatsgjöld hafa hækkað í verði, en þó ekki svo, að það sé vegna aukins fjölda afsala og kaupsamninga, sem tekjurnar hafa orðið svo miklar, heldur fyrir það, að kaupgjald hefur almennt hækkað á fasteignum, og það kom fram á stimpilgjaldinu. Má segja, að frv. sé til bóta að því leyti, að vanræki menn að gefa upp rétt kaupverð, er gert ráð fyrir, að stimpilgjald sé tekið af tvöföldu fasteignamatsverði. Fjmrh. hafði frv. til athugunar og komst að þeirri niðurstöðu, að rétt mundi vera að breyta þessu þanni, að miða skyldi stimpilgjald. við fasteignamatsverð, en ekki við kaupverð, og hækka gjaldið í 2% af fasteignamatsverði. Þessi hækkun gjaldsins er þá miðuð við það ástand, sem nú er, að söluverð fasteigna sé yfirleitt hærra en fasteignamatsverð þeirra.

Þegar stimpilgjaldið var lögfest 1921, var þetta gjald ákveðið 1% á afsölum og kaupsamningum fyrir fasteignum, og það var þá töluvert hærra heldur en tíðkaðist í nágrannalöndunum. Hver ástæðan var fyrir þessu, veit ég ekki, en ég hygg, að tvær ástæður hafi valdið því, að gjaldið var ákveðið svo hátt. Í fyrsta lagi sú, að ríkissjóðinn skorti tekjur, eins og oft vill verða, og gjaldið því ákveðið svo hátt til að ná inn sem mestu fé. Í öðru lagi var skammt frá því, að styrjöldinni lauk, og verð á fasteignum mjög hátt. Gengu fasteignir meira kaupum og sölum, heldur en heppilegt þótti, og má vera, að þetta hafi verið gert til þess að draga meira úr þessu húsabraski og jarðabraski. Svo líða nokkur ár, og verðlagið er enn hækkað um 25%, og var sú hækkun þá nefnd gengishækkun. Enn var verðlagið hækkað um 12%, svo að samanlagt varð hækkunin 40%, og við það situr enn. Stimpilgjaldið er nú 1.4% af söluverði fasteigna. Með þessu frv. og brtt. er gert ráð fyrir að hækka þessi gjöld um helming. Það má deila um, hvort sú stefna er rétt, sem hér er farið inn á, að breyta grundvellinum fyrir stimpilgjaldi fasteigna og miða við fasteignamat í staðinn fyrir söluverð. En það vinnst þó með því, að gjaldið kemur réttlátar niður, og það verður engum kleift að skjóta sér undan í því efni, eins og vill verða, þegar miðað er við söluverð. Það virðist ekki heldur óeðlilegt, að stimpilgjald af fasteignum sé miðað við fasteignamatsverð, eins og gert er með aðra skatta til ríkis og bæja af fasteignum. T.d. er fasteignaskattur miðaður við fasteignamat, svo og eignarskattur til ríkis og fleiri slík gjöld. Þetta yrði líka einfalt og þægilegt í framkvæmdinni. Það, sem athugavert er við þessa breyt., má segja, að sé það, að gjöldin séu hækkuð miðað við núverandi ástand, en ef fasteignir lækkuðu í verði, yrði að lækka stimpilgjöldin eins og önnur gjöld. Ég ætlast líka til þess, að menn skilji þessa hluti og hækki eða lækki stimpilgjöldin eftir því verðlagi, sem er á hverjum tíma.