15.04.1942
Efri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

18. mál, stimpilgjald

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti ! Það er nú aðallega til þess að leiðrétta misskilning hjá hv. 11. landsk., að ég kvaddi mér hljóðs. Hann virðist hafa skilið orð mín svo, að ég teldi stimpilgjaldið lagt á sem refsiskatt, en það er langt frá því, að það væri meining mín. Mér er ljóst, að það er ein af tekjuöflunarleiðum ríkissjóðs. En ég benti á það í ræðu minni, að hv. flm. hefði borið fram þetta frv. af því, að hann teldi nauðsyn á að ná stimpilgjaldi, sem nokkrir menn, er standa að fasteignasölum, hefðu ekki greitt, og að hann hefði gert ráð fyrir því, að með því að hækka þetta stimpilgjald væri hægt að ná þeim seku með því að taka stimpilgjald eftir fasteignamati og gera það eftir brtt. hans við l. Þannig ætlaði hann að refsa þeim seku. En ég býst við, að í staðinn fyrir að refsa þeim seku, þá kæmi þetta niður á þeim saklausu í þessum efnum úti um land. Ýmsar sölur úti á landi hafa enn ekki komizt í að verða það háar, að nemi tvöföldu fasteignamati, og þar af leiðandi væri verið að refsa þeim, sem að slíkum sölum standa, með því að leggja á þá þetta háa gjald, sem í brtt. hv. 11. landsk. er lagt til, að tekið verði. Jafnframt er vitað, að hér í Reykjavík eru eignir seldar með þreföldu og jafnvel ferföldu fasteignamatsverði. En undir þeim kringumstæðum mundi ekki nást það gjald, sem eftir l. á að greiða af slíkum sölum, ef brtt. hv. 11. landsk. væri samþ. Það þarf aukna árvekni og skyldurækni innheimtumannanna til þess að ná því rétta stimpilgjaldi eða komast sem næst því.

Hv. meðnm. minn hér í d. er mér og hv. flm. sammála um það, að ekki sé rétt að víkja frá meginanda stimpill. frá 1921, sem ætlast til þess, að stimpilgjaldið sé innheimt af raunverulegu söluverði eignanna á hverjum tíma.