07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

15. mál, málflytjendur

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Hv. 7. landsk. var að benda á læknakandidata. Ég veit ekki til, að til séu í l. nein skilyrði fyrir embættaveitingum læknakandidata, að þeir hafi 1. einkunn. Það getur verið, að til séu einhver reglugerðarákvæði þar að lútandi. Hins vegar vil ég benda á að því er snertir lögfræðinga, að það eru til ákvæði, er gera mun á 1. og 2. einkunn. Það getur t.d. enginn orðið hæstaréttardómari, nema hann hafi hlotið 1. einkunn við embættispróf. Mjög litlar líkur eru líka á því, að prófessor í lögum geti orðið annar en sá, er 1. einkunn hefur hlotið. En ég er alveg sannfærður um að stúdentar stunda nám sitt engu verr, þó að þetta ákvæði verði sett í l. Ég vil líka benda á það, að áður en þetta skilyrði um 1. einkunn var sett í lög, voru allir beztu málflytjendur hér einmitt 2. einkunnar menn. Ég hirði ekki að nefna nein nöfn, en ég veit, að mönnum er þetta kunnugt. En það sýnir, að þetta háði ekki mönnum á neinn hátt, þátt þeir hefðu útskrifazt með 2. einkunn. Svo er eitt enn í þessu sambandi. Það getur alltaf komið fyrir, að breytt sé um fyrirkomulag prófa. Aðstæður allar og þær kröfur, sem gerðar eru, geta breytzt svo, að um sambærilegt próf sé alls ekki að ræða. Það getur líka farið svo, að prófið verði ekki aðalatriðið, heldur verklegt nám á einhvern hátt.