13.05.1942
Efri deild: 56. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

15. mál, málflytjendur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þetta mál hefur gengið með miklum hraða, og hef ég því ekki getað borið nál. saman við frv. sjálft. En það er eitt atriði, sem mér kemur einkennilega fyrir sjónir hjá allshn. Hún treystir sér ekki til að leyfa hæstarétti að gera ályktanir um, að sýslumenn sleppi hjá prófi til þess að verða hæstaréttarlögmenn. Aftur á móti er fulltrúum hjá fógetum heimilað að fá undanþágu frá þessu prófi. Ég tel t.d. ekki efa, að sýslumaðurinn í Árnessýslu hefði meiri reynslu í dómarastörfum eftir 20 ára starf heldur en fulltrúi hjá bæjarfógetanum á Norðfirði, og finnst mér hin mesta fjarstæða að skilja þarna á milli. Þá er og gerður greinarmunur á bæjarfógeta og sýslumanni, sem er að vísu ekki eins fráleitt, enda þótt ég efist um, að reynslan sé viða meiri hjá honum heldur en sýslumanni í stórri sýslu. Ég er ekki með þessu að mæla fyrir minn munn, því að ég ætla mér ekki að sækja um að komast að sem hæstaréttarlögmaður, heldur lít ég á málið út frá sjónarmiði stéttarbræðra minna. Ég óska þess, að hv. n. fresti málinu til 3. umr. og athugi þetta atriði meðal annarra.