15.05.1942
Efri deild: 58. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

15. mál, málflytjendur

*Sigurjón Á Ólafsson:

Ég hefði líklega ekki kvatt mér hljóðs, ef hv. 5. landsk. hefði ekki lýst yfir því hér áðan, að hann hafi talað við alla nm. um brtt. sína og þeir hafi allir fallizt á hana. Ég minnist þess ekki, að hann hafi talað um þetta við mig, svo að ég er þar undanskilinn. Ég játa, að úr því að þessi upptalning er á annað borð, þá sé erfitt að ganga fram hjá sýslumönnum, en mér finnst upptalningin vera orðin nógu löng. Í upptalningunni eru ekki menn, sem hugsanlega gætu komið til greina, t.d. saksóknarar í málum, svo að illt er að vita, hvenær upptalningin tæki enda, ef alltaf kæmu nýir og nýir. Þetta er að vísu lagt á vald hæstaréttar, og hann mun vafalaust oft komast í mikinn vanda. En eins og hv. frsm. hefur skýrt frá, þá sá n. ekki ástæðu til þess að leggja þetta á hans vald. Ég verð að segja það, þó að ég hafi kannske ekki mikla reynslu eða þekkingu á þessu máli, að hér eru þó í upptalningunni menn, sem gera má ráð fyrir, að mest fáist við dómsstörf í landinu og meðferð mála á ýmsan hátt. En reynslan hefur sýnt, að margir héraðsdómarar hafa, — ég vil segja sem betur fer —, litla reynslu af dómsmálum. Það munu vera dæmi þess, að héraðsdómarar hafi ár eftir ár sloppið við það að þurfa að kveða upp einn einasta dóm. Það má því segja, að reynsla þeirra sé ákaflega lítil í þessu efni. Ég sé því ekki, að það sé rétt að setja þessa menn á bekk með þeim mönnum, sem langmesta reynslu hafa í þessum efnum. Það má geta þess, að eins og l. hafa verið, frá því að þetta var sett í l., að menn þyrftu að taka þessi próf, þá hefur samkv. þessum l. tekið þetta próf maður eins og Magnús Guðmundsson, sem var sýslumaður, skrifstofustjóri í stjórnarráðinu og dómsmálaráðherra, áður en hann tók þetta próf, en honum var gert að skyldu að taka þetta próf. En af því nú, að hv. þm. Nd. hafa gengið inn á þessa braut um að veita undanþágur og við hér í allshn. í þessari hv. d. viljum ganga til móts við þá um samkomulag, þá virðist mér liggja nærri að óska þess, að þessu verði breytt á þann veg, að allar þessar upptalningar hverfi úr sögunni og það verði látið á vald hæstaréttar, hverjum skuli undanþágur veittar án þess að tilgreina í l., að menn úr víssum stéttum eða störfum skuli fá undanþágur, og á þann hátt hygg ég, að við gætum mætt till. hv. 5. landsk. Má þá vel vera, ef hv. d. vill gefa eitthvað gaum þessari till., að þá væri rétt að fresta málinu að sinni og leita samkomulags um umorðun á þeirri gr. frv., sem um er að ræða, svo að allir mættu við una.