06.03.1942
Neðri deild: 14. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

N. hefur ekki athugað þetta atriði, því að það snertir í rauninni ekki frv. það, sem hér er til umr. Eins og ég tók fram áðan, er frv. aðeins um það, að í reglugerðinni megi ákveða um viðurlög við brotum á henni. Það er annað mál, hvernig fara skuli með innistæður þær í erlendri mynt, er ýmis félög eiga og myndazt hafa vegna ákvæða þessara l. Ég er ekki kunnugur þessum málum, en mér skilst, að n. sú, sem ákveður, hve mikill hluti gjaldeyrisins skuli keyptur, hafi farið eftir því, hver væri þörf útflytjenda á gjaldeyri til þess að greiða kostnað af rekstri sínum. Eins og hv. landsk. veik að, var það ákveðið í fyrra, þegar sett voru í skattal. ákvæði um nýbyggingarsjóð, að nota mætti nokkurn hluta þess fjár, sem væri á biðreikningum í erlendri mynt, til að greiða tilskilin framlög í þann sjóð. Ég hef heyrt, að á þeim reikningum muni hafa verið hálf milljón sterlingspunda, eða milli 10 og 15 millj. ísl. kr. Hins vegar hef ég heyrt, að nokkur breyting hafi á þessu orðið, síðan farið var að greiða mikinn hluta útflutningsins í dollurum. Til þessa mun hafa verið full þörf allra dollaranna, en við höfum hins vegar ekki þurft á að halda nema litlu af hinni miklu sterlingspundaeign bankanna.

Fyrirspurn hv. 7. landsk. snertir sem sagt ekki beinlinis þetta frv., en hann og aðrir hv. þm. geta að sjálfsögðu fengið upplýsingar um það hjá hæstv. ríkisstj., hvernig þessi l. hafa verið framkvæmd. Ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu, að málinu yrði nú vísað til 3. umr.