06.03.1942
Neðri deild: 14. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

*Haraldur Guðmundsson:

Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvort ekki hafi verið upp tekinn sérreikningur fyrir biðdollara. Ég hygg, að n. sú, sem á að fjalla um þessi mál, hafi eitt sinn ákveðið vissa lágmarksupphæð sterlingspunda, sem mætti flytja heim. Mun hafa vakað fyrir henni, að allan kostnað, beinan og óbeinan, bæri að flytja heim, en aðeins þann hlutann, sem væri hreinn gróði, skyldi binda á biðreikningum erlendis. Þetta mun hafa verið gert til þess að koma í veg fyrir það, að hreinn stríðsgróði yrði fluttur inn í landið til þess að auka á verðbólguna. Nú hefur orðið á ú breyting, að útflytjendur fá vöru sína greidda í dollurum, og sá hluti þessarar greiðslu, sem er hreinn gróði, hefur sams konar áhrif um það að auka á verðbólguna og hinn hreini stríðsgróði í sterlingspundum. Því spyr ég hæstv. stj., hvort engar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að setja slíkt fé á biðreikninga, eða fá seljendurnir þann hluta verðsins, sem er hreinn stríðsgróði, til frjálsra umráða?